Um KMÍ
Á döfinni

4.12.2023

Bíó Paradís hlýtur Hvatningarverðlaun ÖBÍ

Bíó Paradís er handhafi Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands í ár fyrir frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Mannréttindahúsinu á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks 3. desember, þar sem kastljósinu er beint að réttindabaráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess breiða hóps í samfélaginu.

Í tilkynningu ÖBÍ segir að Bíó Paradís hljóti verðlaunin fyrir að auka aðgengi ólíkra hópa. „Þau beiti nálgun sem endurspegli nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðli að einu samfélagi fyrir alla.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin, og tók Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, við þeim.

„Ég er orðlaus. Ég bjóst innilega ekki við þessu. Mig langar líka að segja, að þegar ég sá þá sem eru tilnefndir með mér, mér finnst ég verði að deila þessum verðlaunum með ykkur,“ sagði Hrönn.

„Eins og við vitum skiptir menning, þátttaka og samvera miklu máli fyrir samfélagið. Það er bensínið okkar og gerir okkur að þeim sem við erum. Þess vegna hefur það verið okkur svo mikið kappsmál að fá alla fjölbreytta hópa samfélagsins inn. En ávinningurinn er allur okkar megin því menningarlega auðmagnið sem við fáum inn frá því að geta boðið alla velkomna er okkar megin.“