Umsóknir

Styrkir fyrir stuttmyndir

Framleiðslustyrkir

Vinsamlegast athugið. Ekki er þörf á því að skila inn útprentuðu pappírseintaki á skrifstofu KMÍ heldur nægir að senda undirritað umsóknareyðublað ásamt fylgigögnum í einu PDF-skjali á netfangið umsoknir@kvikmyndamidstod.is. 

Tímabundin vilyrði og framleiðslustyrkir eru aðeins veitt íslenskum framleiðslufyrirtækjum sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi. Þar sem styrkur Kvikmyndasjóðs opnar oft dyr að annarri fjármögnun er æskilegt að sækja um með góðum fyrirvara.

Afgreiðsla sjóðsins tekur að jafnaði allt að 8-10 vikur. Skömmu eftir skil á umsókn fá umsækjendur staðfestingu frá Kvikmyndamiðstöð um móttöku umsóknar.

Verkefnið fer þá til umsagnar hjá kvikmyndaráðgjafa sem leggur  listrænt mat á umsóknir með hliðsjón af fjárhags- og framkvæmdarþáttum.

Kvikmyndaráðgjafar fylgjast jafnframt með því að framvinda verks sé í samræmi við ákvæði úthlutunarsamnings og geta kallað eftir frekari gögnum og fundað með umsækjendum/styrkþegum eftir þörfum. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingar úr sjóðnum.

Fáist jákvætt svar við umsókn er gefið út vilyrði fyrir styrk. Áður en unnt er að ganga frá úthlutunarsamningi milli framleiðanda og Kvikmyndasjóðs um framleiðslustyrk þarf fjármögnun frá öðrum aðilum en Kvikmyndasjóði að vera að fullu lokið og önnur ákvæði reglugerðar uppfyllt. Athugið að ganga verður frá samningi áður en tökur á kvikmyndinni hefjast.

Meðferð umsókna og úthlutanir á styrkjum byggist á reglugerð um Kvikmyndasjóð nr. 229/2003 og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér hana á vefsíðu reglugerðasafns (einnig hægt að nálgast Word skjal).

Umsækjendur þurfa að fylla út umsóknareyðublað vegna framleiðslustyrks og eyðublað fyrir listrænar lykilstöður eftir kyni.

Eyðublað KMÍ um kostnaðaráætlun á .xls formi.


Kynningarstyrkir

Veita má kynningarstyrki til kynningar og markaðssetningar á fullbúnum kvikmyndum. Skilyrði styrkveitingar er að framleiðslu kvikmyndar sé lokið og áætlun um kynningu og kostnað liggi fyrir.

Í tilfelli ferðastyrkja fyrir kvikmyndagerðarmenn vegna vals á kvikmyndahátíð er miðað við að um virtar lykilhátíðir sé að ræða, yfirleitt svokallaðar „A“ hátíðir auk norrænna kvikmyndahátíða sem KMÍ er aðili að. Sjá nánari upplýsingar um alþjóðlegar kvikmyndahátíðir.

Stuðst er við flokkun Alþjóðasamtaka Kvikmyndaframleiðenda (FIAPF) á A hátíðum. Á vef FIAPF samtakanna má finna flokkaskipta lista yfir hátíðirnar.