Umsóknir

Umsóknir í Kvikmyndasjóð

Kvikmyndasjóður

Vinsamlegast athugið. Ekki er þörf á því að skila inn útprentuðu pappírseintaki á skrifstofu KMÍ heldur nægir að senda undirritað umsóknareyðublað ásamt fylgigögnum í einu PDF-skjali á netfangið umsoknir@kvikmyndamidstod.is. 

Kvikmyndasjóður veitir styrki til handritsgerðar, þróunar verkefna, framleiðslu íslenskra kvikmynda og kynningar á þeim.

Styrkir úr Kvikmyndasjóði eru einungis veittir framleiðslufyrirtækjum og einstaklingum sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi og skiptast styrkir í fimm meginflokka: 

·         Leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum.
·         Stuttmyndir
·         Heimildamyndir
·         Leikið sjónvarpsefni

Allar upplýsingar um fyrirkomulag styrkja er að finna í  reglugerð um Kvikmyndasjóð (einnig hægt að nálgast Word skjal) og eru umsækjendur hvattir til að kynna sér hana.

Styrkir úr Kvikmyndasjóði og framlög frá Kvikmyndamiðstöð ásamt 25% endurgreiðslum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti mega ekki fara samtals yfir 85% af áætluðum heildarkostnaði.

Ójafnvægi í hlut kynja

Í ljósi þess að á síðastliðnum árum hefur hlutfall kvenkyns umsækjenda verið töluvert lægra en hlutfall karlkyns umsækjenda hvetur KMÍ konur til að sækja í auknum mæli um styrki úr Kvikmyndasjóði.

Við mat á umsóknum lítur Kvikmyndasjóður til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð.

Bæði kvenkyns og karlkyns umsækjendur eru ennfremur hvattir til að huga að jafnvægi milli kynja þegar skipað er í listrænar lykilstöður einstakra mynda og gæta þess að reynsluheimi bæði kvenna og karla séu gerð skil í þeim.

Bechdel prófið er hentugt vinnutæki til að glöggva sig á hlut kynja í einstaka verkefnum, en þar er lögð áhersla á þrjá þætti:

1. Að í myndinni séu a.m.k. tvær kvenpersónur með nafni,
2. að þær eigi samtal,
3. um eitthvað annað en karlmenn.