Umsóknir

Aðrir styrkir

Kynningarstyrkir vegna þátttöku á erlendum kvikmyndahátíðum

Kynningarstyrkir eru veittir úr Kvikmyndasjóði. Veita má kynningarstyrki til kynningar og markaðssetningar á fullbúnum kvikmyndum. Skilyrði styrkveitingar er að framleiðslu kvikmyndar sé lokið og áætlun um kynningu og kostnað liggi fyrir.

Framleiðandi íslenskrar kvikmyndar getur sótt um kynningarstyrk í tengslum við sýningu myndar á erlendri kvikmyndahátíð sem flokkast undir A-lista kvikmyndahátíð, eða ef kvikmynd er boðin þátttaka á kvikmyndafókusum með áherslu á íslenskar myndir eða alþjóðlegu samstarfi sem KMÍ á aðild að.

Kynningarstyrkir skiptast í tvo flokka. Annars vegar eru veittir styrkir af tilefni alþjóðlegrar frumsýningar á aðalsýningarflokkum A-lista hátíðar (e. international launch). Hins vegar eru veittir ferðastyrkir til kvikmyndagerðarmanna sem eiga kvikmynd sem boðin er þátttaka á A-lista hátíð. Fyrri styrkjaflokkurinn getur numið allt að 2,5 m.kr. en sá síðari tekur að jafnaði mið af fargjaldi fyrir lykilaðila kvikmyndar (t.d. leikstjóra) á vettvang viðurkenndrar kvikmyndahátíðar.

 Nánari upplýsingar um hvorn styrkjaflokk og hvernig skal sækja um má sjá hér:

 Umsókn skal senda á tölvupóstfangið: umsoknir@kvikmyndamidstod.is

Styrkir til þátttöku í vinnustofum

Veittir eru styrkir til kvikmyndagerðarmanna sem valdir hafa verið til þátttöku í viðurkenndum vinnustofum og námskeiðum.

Viðurkennd námskeið og vinnustofur hafa að jafnaði verið auglýst á vef Kvikmyndamiðstöðvar þar sem tilgreind eru skilyrði umsókna. Kvikmyndamiðstöð velur ekki þátttakendur í þessum tilvikum, en getur komið til móts við kostnað þátttakenda vegna slíks tilefnis.

Umsókn skjal fylgja staðfesting á þátttökurétti á viðkomandi vinnustofu/námskeiði ásamt áætlun um kostnað við þátttöku. Styrkveiting KMÍ getur numið annað hvort aðildargjaldi eða fargjaldi á vettvang. Styrkur er greiddur eftirá gegn staðfestingu á útlögðum kostnaði kvikmyndagerðarmanns vegna fyrrnefndra kostnaðarliða.

 Umsókn skal senda á tölvupóstfangið: umsoknir@kvikmyndamidstod.is

Styrkir til kvikmyndahátíða innanlands

Veittir eru styrkir til kvikmyndahátíða innanlands sem eru til þess fallnar að efla kvikmyndamenningu með að auka fjölbreytni kvikmynda sem sýndar eru almenningi.

Skipuleggjandi kvikmyndahátíðar getur sótt um styrk til þess að mæta kostnaði við framkvæmd hennar. Slíkri umsókn skal fylgja:

  • Kynning og stutt greinargerð um framkvæmd fyrirhugaðrar hátíðar
  • Kostnaðaráætlun fyrir hátíðina
  • Fjármögnunaráætlun fyrir hátíðina – þ.e. hvernig á að fjármagna hátíðina
  • Dagskrá hátíðarinnar, bæði fyrir áætlaðar sýningar kvikmynda og einnig aðrar uppákomur og vinnustofur.

 Umsókn skal senda á tölvupóstfangið: umsoknir@kvikmyndamidstod.is, merkt styrkur vegna kvikmyndahátíðar.