Meðferð og mat á umsóknum í Kvikmyndasjóð

Til að eiga kost á styrk úr Kvikmyndasjóði þarf kvikmynd að vera unnin og kostuð af íslenskum aðilum eða í samstarfi íslenskra og erlendra aðila.

Hægt er að leggja inn umsóknir hvenær sem er og afgreiðslutími þeirra er að jafnaði 8-10 vikur. Til að koma í veg fyrir tafir og flýta fyrir afgreiðslu umsókna er mælt með því að umsóknum sé skilað inn fullbúnum, þ.e. með öllum umbeðnum fylgigögnum.

Styrkir úr Kvikmyndasjóði geta runnið til handritsgerðar, þróunar, framleiðslu, þ.m.t. tímabundinna vilyrða til framleiðslustyrkja, eftirvinnslu og kynningar.

Kvikmyndaráðgjafi metur umsóknina en forstöðumaður KMÍ tekur endanlega ákvörðun um veitingu styrkja. Niðurstaða byggir einnig á fjárheimildum og stöðu Kvikmyndasjóðs hverju sinni. Fáist jákvætt svar við umsókn er gefið út vilyrði um styrk, sem opnar framleiðendum oft dyr að frekari fjármögnun.

Verkefni sem nýtur styrks skal:

  1. vera á íslenskri tungu eða hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun,
  2. stuðla að eflingu innlendrar kvikmyndagerðar með aukinni þekkingu og reynslu til gerðar kvik­mynda sem lýst er í 1. mgr. 2. gr. og styrkja rekstrargrundvöll atvinnugreinarinnar,
  3. uppfylla kröfur um gæði, listrænt framlag og nýsköpun,
  4. hafa breiða skírskotun til áhorfenda.

Við mat á umsóknum skal einnig líta til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð.

Ganga verður frá úthlutunarsamningi milli framleiðanda og KMÍ áður en aðaltökutímabil hefst, þá skal fjármögnun vera lokið og önnur ákvæði reglugerðar um Kvikmyndasjóð (einnig hægt að nálgast Word skjal) uppfyllt.