Um KMÍ
Á döfinni

9.6.2018

Birgit Guðjónsdóttir hlýtur heiðursverðlaun Þýsku kvikmyndaverðlaunanna

Íslensk/austurríska kvikmyndatökukonan Birgit Guðjónsdóttir hlaut nýverið heiðursverðlaun Þýsku kvikmyndaverðlaunanna. Heiðursverðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi feril kvikmyndagerðarmanns. Birgit mun veita verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn þann 7. júlí næstkomandi í Köln.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir veitingu heiðursverðlaunanna segir að öll verk Birgit beri þess merki að hún sé „mjög næm og með gott innsæi, og gildi það jafnt um kvikmyndir og sjónvarpsefni. Hún á gott með að takast á við alvöru málefni sem henni tekst að gæða tilfinningum og stemningu þökk sé glöggu auga sínu. Hæfileikar hennar liggja ekki bara í því að taka fallegar myndir heldur að skapa nákvæma blöndu augnablika, afstöðu, sjónarhorna og hreyfingar myndavélarinnar. Myndir hennar búa yfir innri krafti sem hvetja áhorfendur til umhugsunar.“ Dómnefndin nefndi einnig sérstaklega mannlega og fagmannlega nærveru hennar í þýska kvikmyndaiðnaðinum, þar sem hún hefur stutt ötullega við baráttu um jafnrétti kynjanna.

Birgit er fædd árið 1962 í Reykjavík og hefur verið búsett í Berlín frá aldamótum. Á þeim tíma hefur hún hefur aðallega starfað við þýsk verkefni sem kvikmyndatökustjóri, þar á meðal Jargo sem María Sólrún leikstýrði og var heimsfrumsýnd á Berlinale hátíðinni árið 2004 en einnig var hún kvikmyndatökustjóri tyrknesku myndarinnar Our Grand Despair, sem var heimsfrumsýnd á Berlinale hátíðinni árið 2011. Auk þess hefur hún starfað sem einn tökumanna við þýsku myndina Good Bye, Lenin! og bandarísku kvikmyndirnar The Bourne Supremacy og Æon Flux.