Um KMÍ
Á döfinni

23.3.2020

Blaðberinn sigurvegari Sprettfisksins á Stockfish kvikmyndahátíðinni

Stuttmyndin Blaðberinn eftir Ninnu Pálmadóttur bar sigur úr býtum í stuttmyndakeppninni Sprettfiskurinn sem Stockfish kvikmyndahátíðin stendur fyrir. Í verðlaun hlaut Ninna 1 milljón kr. tækjaúttekt hjá Kukl. 

Stockfish kvikmyndahátíðin fór fram dagana 12. - 22. mars og í dómnefndinni í ár sátu handritshöfundurinn Ottó Geir Borg (Brim, Brot, Gauragangur), leikstjórinn Silja Hauksdóttir (Agnes Joy, Ástríður, Dís) og kvikmyndagagnrýnandinn og stofnandi Ubiquarian kvikmyndavefsins, Marina D. Richter.

Umsögn dómnefndar um verðlaunamyndina er eftirfarandi: „Stundum kemur hjálpin úr ólíklegustu átt, t.d. frá litlum manneskjum sem við höfum kannski ekki veitt mikla athygli eða tekið sérstaklega eftir. Stundum geta litlar manneskjur verið einmitt það – börn. Hetja Sprettfisksins í ár er brotin og fer ekki hátt. En þrátt fyrir að bera sínar eigin sorgarbirgðar er þessi litla manneskja megnug að sýna náungakæreik og hughreysta bláókunnuga manneskju. 

Við í dómnefnd erum einróma í vali okkar ár. Vegna þess hvað myndmálið er sterkt og segir mikla sögu án þess að notast við mörg orð. Vegna þess hve handritið er vel útfært og setur mannleg tengsl í forgrunn. Við bætist svo einstakt auga fyrir smáatriðum sem gera mikið fyrir söguna. Því er það okkar mat að Blaðberinn, eftir Ninnu Pálmadóttur, hljóti Sprettfiskinn í ár.“

Sprettfiskur er stuttmyndakeppni Stockfish hátíðarinnar. Markmið keppninnar er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til frekari dáða með verðlaunum sem leggja grunninn að næsta verkefni.

Nánari upplýsingar um Stockfish kvikmyndahátíðina má lesa hér.