Um KMÍ
Á döfinni

22.10.2018

Danska nýbylgjan, málþing og kvikmyndasýningar


Norræna húsið, föstudaginn 26. október kl. 14 - 18.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Norræna húsið efna til málþings um nýsköpun í dönsku kvikmyndagreininni í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Kvikmyndin Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason hefur vakið mikla athygli bæði í Danmörku og hér heima. Myndin var styrkt af New Danish Screen, deild sem tilheyrir dönsku kvikmyndamiðstöðinni, og hefur það hlutverk að styðja við ungt hæfileikafólk og stuðla að nýsköpun í kvikmyndageiranum.

Hjá Danish Screen fær kvikmyndagerðarfólk tækifæri til þess að framleiða efnaminni (e. low-budget) kvikmyndir, þar sem fjárhagslegar takmarkanir eiga ekki að hefta kvikmyndagerðarmenn, fundnar eru nýjar leiðir til að hámarka sköpun og frelsi. Árangurinn hefur verið stórbrotinn og sjaldan hefur listræn gróska verið jafn mikil í danskri kvikmyndagerð og um þessar mundir.

Á málþinginu gefst áhugasömum kostur á að kynnast þessu brautryðjendastarfi. Mette Damgaard-Sørensen, forstöðumaður New Danish Screen, mun halda erindi um hugmyndafræði og aðferðir sjóðsins og einnig munu leikstjórar og framleiðendur kvikmyndanna Cutterhead og Neon Heart fara ofan í saumana á þróun og framkvæmd verka sinna. 

Stjórnandi málþingsins er Dagur Kári, leikstjóri og handritshöfundur.

Málþingið er haldið á ensku.