Um KMÍ
Á döfinni

1.9.2017

Fangar tilnefnd til Prix Europa verðlaunanna

Fangar hefur verið tilnefnd til Prix Europa verðlaunanna fyrir besta leikna sjónvarpsefni. 24 þáttaraðir frá 17 Evrópulöndum eru tilnefndar að þessu sinni. Verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 20. október í Berlín. Prix Europa verðlaunin eru ein þau stærstu sinnar tegundar í Evrópu og tilnefningin því mikill heiður.

Í fyrra varð Ófærð fyrsta íslenska þáttaröðin til að vinna til verðlaunanna.

Föngum var leikstýrt af Ragnari Bragasyni. Ragnar skrifaði einnig handritið að þáttunum ásamt Margréti Örnólfsdóttur og Jóhanni Ævari Grímssyni, byggt á hugmynd Nínu Daggar Filippusdóttur og Unnar Aspar Stefánsdóttur. Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filippusson framleiddu þáttaröðina fyrir hönd framleiðslufyrirtækisins Mystery.

Fangar er átakamikil fjölskyldusaga úr íslenskum samtíma. Líf Lindu og fjölskyldu hennar umturnast þegar hún er færð í kvennafangelsið í Kópavogi eftir að hafa ráðist á föður sinn, þekktan mann úr viðskiptalífinu og veitt honum lífshættulega áverka. Á sama tíma og Herdís móðir Lindu berst í fullkominni afneitun við að halda ímynd fjölskyldunnar flekklausri fer þingmaðurinn Valgerður, eldri systirin, að nýta fjölskylduharmleikinn sér til framdráttar. Í fangelsinu hittir Linda fyrir aðrar konur sem hafa farið út af sporinu og myndar sambönd sem hafa örlagarík áhrif á líf hennar.

Stikla:

Fangar stikla
Með sölu og dreifingu erlendis fer sölufyrirtækið Global Screen (ulrike.schroeder@globalscreen.de)