Um KMÍ
Á döfinni

13.5.2020

Ferðatakmarkanir rýmkaðar frá 15. maí fyrir vinnusóttkví - þar á meðal fyrir kvikmyndagerðarmenn

Stjórnarráð Íslands hefur gefið út tilkynningu er varðar rýmkun á ferðatakmörkunum. Gildandi sóttvarnareglur falla úr gildi 15. maí, en samkvæmt þeim er öllum skylt að fara í sóttkví við komuna til landsins. Ákveðnar undanþágur hafa þó verið veittar vegna kerfislega eða efnahagslega mikilvægrar starfsemi þar sem sóttvarnalæknir hefur getað heimilað fólki að sæta sóttkví á vinnustað. 

Nýjar reglur um sóttkví taka gildi frá 15. maí og gilda til 15. júní. Samkvæmt þeim verður þeim sem koma til landsins áfram skylt að fara í sóttkví í 14 daga, en heimild til að beita vinnusóttkví verður rýmkuð og skýrð nánar með nýjum reglum. Kjarninn í breytingunni felst í því að skilyrði fyrir vinnusóttkví verða ekki lengur bundin við kerfislega eða efnahagslega mikilvæga starfsemi. Fyrst og fremst verður horft til þess að viðkomandi umgangist ekki aðra meðan á sóttkví stendur eins og nánar verður skýrt í nýjum reglum heilbrigðisráðherra.

Kvikmyndagerðarmenn eru á meðal þeirra sem geta sótt um heimild til að beita vinnusóttkví, sjá nánar hér:


Frá því að Ted Sarandos, yfirmaður hjá Netflix, greindi frá því að efnisveitan væri með framleiðslu í tveimur löndum, Suður Kóreu og Íslandi, hafa erlend kvikmyndaver og framleiðendur hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga. Framleiðsla Netflix sem um var að ræða er sjónvarpsþáttaserían Katla, undir leikstjórn Baltasars Kormáks, og er í höndum framleiðslufyrirtækisins RVK Studios.

Stefnt er að því að eigi síðar en 15. júní verði ferðatakmarkanir rýmkaðar til muna með innleiðingu reglna um sýnatöku sem fela í sér að þeir sem koma til landsins geta komist hjá sóttkví að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Er þá annað hvort um að ræða að viðkomandi láti prófa sig við COVID-19 á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins, eða geti framvísað fullnægjandi vottorði um að sýnataka erlendis hafi leitt í ljós að viðkomandi sé ekki smitaður af kórónaveirunni.