Um KMÍ
Á döfinni

26.7.2019

Fjögur íslensk verkefni í vinnslu á Nordisk Panorama Forum

Alls munu fjögur íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Nordisk Panorama Forum, sem fer fram sem hluti af Nordisk Panorama hátíðinni frá 22. - 24. september. Tvö af verkefnunum sem voru valin til þátttöku verða kynnt í Pitch hluta vettvangsins. Það eru heimildamyndirnar Full Steam Ahead eftir Grétu Ólafsdóttur og Susan Muska og Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson, sem tekur þátt undir formerkjum Wildcard Iceland.

Þá munu tvær íslenskar heimildamyndir taka þátt sem Observer+ sem eru Þegar við dönsum eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Út úr myrkrinu eftir Titti Johnson og Helga Felixson.

Nordisk Forum er vettvangur fyrir heimildamyndagerðarfólk sem vill komast í samband við fjölda norrænna og alþjóðlegra aðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og ýmsum sjóðum með það fyrir augum að verða heimildamyndum sínum úti um fjármagn.

Nánar um verkefnin

Full Steam Ahead

Ólíkar kynslóðir kvenna veita sjaldgæfa innsýn inn í störf sín innan jarðhitageirans. Þær ræða baráttu sína fyrir jafnrétti á vinnustað og segja frá breytingum sem hafa orðið innan þessa karllæga starfsvettvangs á undanförnum árum.


Hækkum rána

Raise_the_Bar_Web

Þetta er saga um stúlkur sem búa sig undir að taka yfir heiminn. Þær eru 9-11 ára gamlar en hafa sett markmiðið á það að brjóta niður menningarmúra íþróttahreyfingarinnar. Til þess að gera það þurfa þær að búa yfir mikilli tilfinningagreind og yfirburða styrk. Leiðtogi þeirra er óvenjulegur og hækkar í sífellu rána.


Þegar við dönsum

IMG_7580-1-_1564140053097

Þegar við dönsum leiðir okkur á heiðarlegan hátt í gegnum völundarhús sköpunarferlisins. Með leikgleðina að vopni kveikja einstakir listamenn neista hver hjá öðrum, neista sem verður að báli sem tekur sína eigin stefnu og enginn vill slökkva.


Út úr myrkrinu

Talið er að 5 – 600 sjálfsvígstilraunir séu gerðar árlega á Íslandi. 40 – 50 manns tekst að taka sitt eigið líf. Takmarkið með þessari mynd er að vekja umræðu á efni sem hefur ríkt þöggun í kringum til fjölda ára.