Um KMÍ
Á döfinni

7.3.2018

Fjögur verkefni valin til þátttöku á MIDPOINT Intensive Iceland

Fjögur verkefni hafa verið valin til þátttöku á MIDPOINT Intensive Iceland vinnustofunni, sem fer fram í tengslum við Stockfish kvikmyndahátíðina dagana 10. - 11. mars.  Þetta er í þriðja skiptið sem vinnustofan er haldin í tengslum við hátíðina.

Verkefnin fjögur sem um ræðir eru:

Englaryk – handritshöfundur Bergþóra Snæbjörnsdóttir, leikstjóri Marteinn Þórsson og framleiðandi Guðrún Edda Þórhannesdóttir.

Exit – handritshöfundur Nína Petersen og framleiðandi Lilja Ósk Snorradóttir.

Gelgjur – handritshöfundar Þórey Mjallhvít og Dögg Mósesdóttir og leikstjóri Dögg Mósesdóttir.

Skjálfti – handritshöfundur og leikstjóri Tinna Hrafnsdóttir.

Vinnustofan er ætluð handritshöfundum, leikstjórum og framleiðendum sem vinna að sinni fyrstu eða annarri kvikmynd í fullri lengd.

MIDPOINT Intensive Iceland fer fram undir leiðsögn Gyula Gazdag, sem auk þess að vera kvikmyndagerðarmaður er einnig listrænn stjórnandi Sundance Directors Lab síðan 1997 og ráðgjafi hjá Script Station Berlinale Talents síðan 2006. Árið 2010 valdi hið virta tímarit Variety hann sem einn af tíu bestu kvikmyndakennurum Bandaríkjanna.

Vinnustofan er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Bíó Paradís og Stockfish kvikmyndahátíðinni.