Um KMÍ
Á döfinni

29.1.2020

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg stendur nú yfir - Fjöldi íslenskra kvikmynda á hátíðinni

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg stendur nú yfir til 3. febrúar. Fjöldi íslenskra kvikmynda og verkefna taka þátt í hátíðinni sem er sú stærsta á Norðurlöndunum. 

Síðastliðinn mánudag, þann 27. janúar, átti Héraðið eftir Grím Hákonarson Norðurlandafrumsýningu á hátíðinni. Myndinni var mjög vel tekið og var Grímur viðstaddur sýninguna. Héraðið er meðal átta norrænna mynda sem keppa um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd á hátíðinni. Verðlaunaafhendingin mun fara fram laugardaginn 1. febrúar.

Agnes Joy undir leikstjórn Silju Hauksdóttur og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason taka þátt í „Nordic Light“ sýningarröð hátíðarinnar, auk þess sem þættir úr Pabbahelgum eru sýndir sem hluti af sjónvarpsþáttahluta „Nordic Light“ sýningarraðarinnar. Nanna Kristín Magnúsdóttir er tilnefnd til verðlauna fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum fyrir sjónvarpsþáttaröðina. Verðlaunaafhendingin mun fara fram í kvöld, þann 29. janúar.

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson tekur þátt í „verk í vinnslu“ hluta hátíðarinnar þar sem verkefnið verður kynnt fyrir fagaðilum í kvikmyndaiðnaðinum. Sjón og Valdimar skrifa handritið að Dýrinu og framleiðendur eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim fyrir Go to Sheep.

Þá eru einnig markaðssýningar á kvikmyndunum Gullregn eftir Ragnar Bragason og Þorsti eftir Gauk Úlfarsson og Steinþór Hróar Steinþórsson.

Allar nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Gautaborg má finna á heimasíðu hennar.