Um KMÍ
Á döfinni

28.10.2019

Fjöldi íslenskra kvikmynda á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck

Samtals verða níu íslenskar kvikmyndir sýndar á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi, sem fara fram frá 29. október - 3. nóvember næstkomandi. 

Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson, Héraðið eftir Grím Hákonarson og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason verða sýndar í kvikmyndahluta hátíðarinnar. KAF undir leikstjórn Elínar Hansdóttur, Hönnu Björk Valsdóttur og Önnu Rún Tryggvadóttur, hin pólska/íslenska In Touch undir leikstjórn Pawel Ziemilski og Litla Moskva eftir Grím Hákonarson verða sýndar í heimildamyndahluta hátíðarinnar. Ég eftir Hallfríði Tryggvadóttur og Völu Ómarsdóttur og hin norska/íslenska To Plant a Flag eftir Bobbie Peers verða sýndar í stuttmyndahluta hátíðarinnar. Að lokum verða fyrstu tveir þættirnir af sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð 2 sýndir í „drama series“ hluta hátíðarinnar.

Fjöldi aðstandenda verða viðstaddir Norræna kvikmyndaga í Lübeck, þeirra á meðal Grímur Hákonarson leikstjóri og handritshöfundur Héraðsins og Litlu Moskvu, Arndís Hrönn Egilsdóttir aðalleikkona Héraðsins og Ingvar Sigurðsson aðalleikari kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dagur. Þá mun Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi Bergmáls vera viðstödd fyrir hönd myndarinnar sem og Hanna Björk Valsdóttir framleiðandi og einn af leikstjórum heimildamyndarinnar KAF.