Um KMÍ
Á döfinni

17.8.2017

Fjöldi íslenskra mynda á kvikmyndahátíðinni í Haugasundi

Fjöldi íslenskra kvikmynda á mismunandi stigum framleiðsluferlis verða sýndar og kynntar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi, sem fer fram frá 22. – 25. ágúst.

Eiðurinn
eftir Baltasar Kormák og hin dansk/íslenska Vetrarbræður eftir Hlyn Pálmason verða sýndar sem hluti af Nordic Focus dagskrá hátíðarinnar.

Vetrarbræður
verður einnig sýnd á lokuðum markaðssýningum NNF markaðarins, ásamt Undir trénu undir leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, Svaninum eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur og Ég man þig eftir Óskar Þór Axelsson.

Þrjár kvikmyndir sem eru nú í framleiðslu verða kynntar á „Verk í vinnslu“ hluta hátíðarinnar. Þetta eru Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur, Lói - þú flýgur aldrei einn undir leikstjórn Árna Óla Ásgeirssonar og Halastjarnan eftir Ara Alexander Ergis Magnússon.

Þá verða tvær leiknar myndir í þróun, Kuldi undir leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur og Dýrið undir leikstjórn Valdimars Jóhannssonar, kynnt á Nordic Boost Genre: Pitch hluta hátíðarinnar. Bæði verkefni hlutu fyrr á árinu þróunarstyrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum, þar sem hluti af sigurlaununum eru kynningar og þátttaka aðstandenda í vinnustofu á Haugasunds hátíðinni.

Atelier, útskriftarverkefni Elsu Maríu Jakobsdóttur frá Danska kvikmyndaskólanum, verður sýnd í Next Nordic Generation hluta hátíðarinnar ásamt 9 öðrum norrænum útskriftarverkefnum.

Freyja, leikin mynd á þróunarstigi eftir Kristófer Dignus, verður kynnt á Nordic Script Pitch hluta hátíðarinnar.