Um KMÍ
Á döfinni

7.10.2020

Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan orðin að veruleika

Fyrsta heildstæða stefna íslenskra stjórnvalda á sviði kvikmyndamála hefur litið dagsins ljós. Stefnan ber yfirskriftina Kvikmyndastefna til ársins 2030 – Listgrein á tímamótum og var unnin í nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda, undir forystu mennta- og menningarmálaráðherra. Kvikmyndagerð hefur fest sig í sessi sem listgrein og sem atvinnugrein hefur umfang hennar margfaldast á síðustu tveimur áratugum. Gerð kvikmyndastefnu er liður í þeirri ætlan stjórnvalda, að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með sérstakri áherslu á greinar sem byggja á hugviti, sköpun og sjálfbærum lausnum.

Kvikmyndastefna til 2030

„Íslenskri kvikmyndagerð hefur fleygt hratt fram og er í hæsta gæðaflokki. Sem listgrein er kvikmyndagerð mjög aðgengileg almenningi og er sérlega mikilvæg í þeirri viðleitni að efla og varðveita tungumálið, spegla samtímann og gera sögu og menningarfi skil. Sem atvinnugrein horfir kvikmyndagerð til framtíðar, er alþjóðleg og sjálfbær í senn. Hún skapar verðmæti fyrir ríkissjóð, skapar á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa, laðar að erlenda fjárfestingu og nýtur sífellt meiri virðingar alþjóðlega. Listrænt framlag kvikmyndagerðafólks er ómælt og mér er bæði ljúft og skylt að styðja greinina með öllum ráðum,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmiðið með kvikmyndastefnunni er að 1) skapa auðuga kvikmyndamenningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu, 2) bjóða fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, 3) styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og 4) Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar.

Tíu aðgerðir eru tilgreindar í stefnunni sem styðja við yfirlýst markmið hennar.

1. Ráðist verður aðgerðir til að efla stuðningskerfi kvikmyndagerðar og auka með því framleiðslu og þróun fjölbreyttari kvikmyndaverka en fram til þessa. Fjárframlag til Kvikmyndasjóðs verður hækkað og nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis verður settur á laggirnar.

2. Öflugra og samstilltara stuðningskerfi á að styðja við vöxt greinarinnar. Kvikmyndamiðstöð Íslands á að gegna veigameira hlutverki og Kvikmyndaráð starfa á breiðari grunni, með þátttöku fleiri fagfélaga og hagaðila. Kvikmyndasafni Íslands verður gert kleift að sinna betur lögbundnu hlutverki sínu; varðveislu, fræðslu og sýningahaldi. Áhersla verður á aukið samráð stjórnvalda og atvinnulífs um framkvæmd stefnunnar.

3. Aðgengi almennings að upplýsingum um öll íslensk kvikmyndaverk verður bætt. Kvikmyndavefurinn verður efldur og búið í haginn fyrir þróun íslenskrar streymisveitu.

4. Stutt verður við sjálfsprottin verkefni á sviði kvikmyndamenningar með samstarfssamningum og styrkjum, t.d. við rekstur menningarlegra kvikmyndahúsa og alþjóðlegra kvikmyndahátíða.

5. Framboð á námi í kvikmyndagerð verður aukið og boðið upp á kennslu mynd- og miðlalæsi á öllum skólastigum. Kvikmyndanám á háskólastigi verður sett á laggirnar og framboð á áföngum í kvikmyndagerð aukið í framhaldsskólum.

6. Samkeppnisstaða íslenskrar kvikmyndagerðar verður tryggð, með áframhaldandi þróun á öflugu endurgreiðslukerfi og skattaívilnunum. Varðveita á kosti núverandi kerfis en jafnframt þróa það til að standast alþjóðlega samkeppni.

7. Stuðlað verður að þróun kvikmyndaklasa og þannig ýtt undir innri vöxt greinarinnar með fjölbreyttu samstarfi fyrirtækja og virðisauka í öðrum atvinnugreinum.

8. Þróaðir verða hagvísar og upplýsingavefur fyrir kvikmyndagreinar sem varpar ljósi á tölfræði og hagvísa kvikmyndagerðar á hverjum tíma. Tilgangurinn er að auka skilning á hagrænum áhrifum og arðsemi kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi og auðvelda ákvarðanatöku.

9. Ráðist verður í aðgerðir til að bæta starfsumhverfi kvikmyndagerðarfólks og m.a. gera greinina fjölskylduvænni. Launasjóði kvikmyndahöfunda verði komið á laggirnar, þar sem leikstjórar og handritshöfundar geta sótt um starfslaun, líkt og tíðkast í öðrum listgreinum.

10. Alþjóðlegt samstarf, bæði kynning á íslenskri kvikmyndagerð sem sjálfbærri kvikmyndagerð og enn markvissari kynning á Íslandi sem heils árs tökustað verður eflt. Kynningar- og ferðastyrkir vegna þátttöku í viðurkenndum hátíðum erlendis fá meira vægi og efldir þeir innviðir sem styrkja samkeppnishæfni Íslands sem sjálfbæran tökustað með framúrskarandi þjónustu við kvikmyndaframleiðendur allt árið um kring.

Nánari upplýsingar um stefnuna