Um KMÍ
Á döfinni

8.6.2018

Gísli Snær Erlingsson ráðinn skólastjóri London Film School

Gísli Snær Erlingsson leikstjóri hefur verið ráðinn sem skólastjóri London Film School (LFS). Frá síðasta hausti hafði Gísli verið settur tímabundinn skólastjóri hjá skólanum en hann tekur nú formlega við starfinu. Hann hafði áður verið námsstjóri hjá skólanum í eitt ár.

Í samtali við Deadline hafði Gísli þetta að segja um ráðninguna: „Það er gífurlegur heiður að vera ráðinn og ég er himinlifandi að fá að leiða frábært teymi elsta kvikmyndaskóla Bretlands.  LFS nýtur góðs af fjölbreyttu kvikmyndagerðar samfélagi með gott alþjóðlegt orðspor. Skólinn hefur ætíð verið stoltur af nemendum sínum og vill spila stærra hlutverk í Bretlandi með stuðningi kvikmyndaiðnaðar og ríkisstjórnar. Ég hlakka til að byggja ofan á þetta á meðan LFS heldur áfram að þróast og vinna áfram náið með starfsfólki og nemendum skólans með það að markmiði að ná enn meiri árangri á svæðinu, á Bretlandi og alþjóðlega.“

Gísli leikstýrði og klippti kvikmyndirnar Stuttur Frakki og Benjamín dúfa og leikstýrði einnig kvikmyndinni Ikíngut. Hann útskrifaðist frá La Fémis kvikmyndaskólanum í París í Frakklandi og er meðlimur Evrópsku kvikmyndaakademíunnar (EFA), Konunglega sjónvarpsfélagsins (RTS), Samtökum kvikmyndaleikstjóra á Íslandi (SKL) og Sambands evrópskra kvikmyndaleikstjóra (FERA).

Margir Íslendingar hafa stundað nám við skólann í gegnum árin, þeirra á meðal Reynir Oddsson leikstjóri og handritshöfundur, Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökumaður, Guðný Halldórsdóttir leikstjóri og handritshöfundur, Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri og handritshöfundur, Karl Óskarsson kvikmyndatökumaður og Hrafnkell Stefánsson handritshöfundur.