Um KMÍ
Á döfinni

25.3.2021

Hækkum rána valin til þátttöku á Hot Docs heimildamyndahátíðinni

Hækkum rána, heimildamynd undir leikstjórn Guðjóns Ragnarssonar hefur verið valin til þátttöku á heimildamyndahátíðinni Hot Docs sem fer fram dagana 29. apríl - 9. maí í Kanada. Hátíðin er ein stærsta sinnar tegundar í heiminum og hefur verið haldin síðan 1993. Útrás myndarinnar hefst því formlega með alþjóðlegri frumsýningu í Kanada þann 29. apríl.

Heimildamyndin fjallar um réttindabaráttu 8-13 ára stúlkna sem vilja breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi og eru þjálfaðar af óvenjulegum þjálfara sem hækkar í sífellu rána. Myndin var fyrst sýnd í Sjónvarpi Símans Premium í byrjun febrúar og vakti mikið umtal.

Hækkum rána
Hækkum rána er sýnd í flokknum „The Changing Face of Europe“ en hún er einnig ein af fimm myndum HotDocs sem valin er inn í skólaprógramm hátíðarinnar „Docs for Schools“. Myndin verður því aðgengileg öllum skólabörnum á aldrinum 13-18 ára í Kanada ásamt vönduðu kennsluefni sem hefur verið útbúið samhliða sýningunum.

Myndin er framleidd af Margréti Jónasdóttur fyrir Sagafilm og meðframleidd af Outi Rousu fyrir finnska framleiðslufyrirtækið Pystymetsä Oy. Einnig hefur verið gengið frá dreifingaréttarsamningi á heimsvísu en dreifingarfyrirtækið Cat&Docs og Sagafilm hafa skrifað undir samning þess efnis og hefur þegar verið gengið frá fyrstu sölum myndarinnar.