Um KMÍ
Á döfinni

7.1.2021

Hálfur álfur og Lífið á eyjunni sýndar á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsø

Heimildamyndin Hálfur álfur eftir Jón Bjarka Magnússon og stuttmyndin Lífið á eyjunni eftir Viktor Sigurjónsson verða sýndar á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsø sem mun fara fram dagana 18. - 24. janúar bæði í stafrænu formi og í Noregi.

Hálfur álfur

Hálfur álfur  er hluti af dagskránni Films from the North Features og fjallar um vitavörðinn Trausta sem tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Í Hálfum Álfi er lífinu fagnað, þrátt fyrir þann veruleika sem bíður okkar allra.

Hálfur álfur hlaut dómnefndarverðlaunin Ljóskastarinn á Skjaldborg sem fór fram í Bíó Paradís í september á síðasta ári, og er myndin framleidd af Jóni Bjarka og Hlín Ólafsdóttur fyrir SKAK bíófilm. Með sölu og dreifingu erlendis fer Feel Sales.


Lífið á eyjunni
Lífið á eyjunni er hluti af dagskránni Films from the North - Shorts 2 og fjallar um hinn 12 ára gamla Braga sem býr í afskekktu þorpi á Austfjörðum. Hann er orðinn þreyttur á einsleitu lífinu í bænum og langar að gera eitthvað nýtt og skapandi. Hann ákveður ásamt nýjum vini að skrá sig í hæfileikakeppni í þorpinu, í þeirru vona að hrista upp í leiðinlegum skyldum hversdagsins.

Viktor Sigurjónsson leikstýrði og skrifði handritið að myndinni sem er framleidd af þeim Atla Óskari Fjalarssyni og Viktori. Með sölu og dreifingu erlendis fer Raina Films.

Allar nánari upplýsingar um Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Tromsø má finna á heimasíðu hátíðarinnar