Um KMÍ
Á döfinni

13.8.2019

Héraðið og Hvítur, hvítur dagur valdar til þátttöku á Toronto kvikmyndahátíðinni

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa verið valdar til þátttöku á hina virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto, Héraðið sem er nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Gríms Hákonarsonar og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Myndirnar verða sýndar í Contemporary World Cinema hluta hátíðarinnar en hátíðin mun fara fram dagana 5. – 15. september.

Héraðið

Héraðið stikla

Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.

Myndin verður frumsýnd hérlendis miðvikudaginn 14. ágúst.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Héraðinu en Grímur hlaut fjölda verðlauna fyrir kvikmynd sína Hrútar sem kom út árið 2015 og hlaut m.a. hin virtu verðlaun Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes. 

Héraðið er framleidd af Grímari Jónssyni fyrir Netop Films og erlendir meðframleiðendur myndarinnar koma frá Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi. Í aðalhlutverkum eru Arndís Hrönn Egilsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hannes Óli Ágústsson, Hinrik Ólafsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir. Tónlist myndarinnar er samin af Valgeiri Sigurðssyni, Mart Taniel stýrir kvikmyndatöku og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu.

Sena sér um dreifingu myndarinnar á Íslandi og New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com) sér um sölu og dreifingu hennar erlendis.

Hvítur, hvítur dagur

Hvítur, hvítur dagur stikla

Hvítur, hvítur dagur segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Myndin verður frumsýnd þann 6. september hér á landi.

Hvítur, hvítur dagur var heimsfrumsýnd á Critics' Week sem er hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Þar var Ingvar Sigurðsson, einn af aðalleikurum myndarinnar valinn besti leikarinn. Kvikmyndin er önnur mynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar en fyrsta kvikmynd hans hin danska/íslenska Vetrarbræður sem kom út árið 2017 fór sigurför um heiminn í kjölfar heimsfrumsýningu í aðalkeppni Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss. 

Hvítur, hvítur dagur er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures og einn af yfirframleiðendum er Guðmundur Arnar Guðmundsson, en myndin er íslensk/dönsk/sænsk samframleiðsla. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sér um klippingu myndarinnar. Hljóðhönnuður myndarinnar er Lars Halvorsen, leikmyndahönnuður Hulda Helgadóttir og tónlist er eftir Edmund Finnis.

Með önnur helstu hlutverk myndarinnar fara þau Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Arnmundur Ernst Bachman, Þór Tulinius og Sverrir Þór Sverrisson.

Með sölu og dreifingu erlendis fer New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com) og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Toronto má finna hér