Um KMÍ
Á döfinni
  • Lesarcs

29.11.2018

Héraðið og Svar við bréfi Helgu á kvikmyndahátíðina Les Arcs - Hross í oss einnig hluti af afmælisdagskrá hátíðarinnar

Kvikmyndahátíðin Les Arcs fer fram 15. – 18. desember næstkomandi, en í ár mun hátíðin fara fram í tíunda skiptið. Til að fagna þeim áfanga munu stiklur úr nýrri kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Héraðið (The County), verða frumsýndar á Work in Progress sýningunum, þar sem 15 evrópskar kvikmyndir í eftirvinnslu verða kynntar framleiðendum, söluaðilum, dreifingaraðilum og öðrum fjármögnunaraðilum.

Héraðið er ekki hluti af þeim 15 kvikmyndum sem kynntar eru á sýningunni og keppa til verðlauna, heldur er frumsýningin á stiklum Gríms hluti af 10 ára afmælisdagskrá Les Arcs. Þess má einnig geta að Hrútar, verðlaunamynd Gríms frá árinu 2015, tók þátt í  Work in Progress sýningunni árið 2014 og einnig í samframleiðslumarkaði Les Arcs árið 2013.

Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson verður einnig sýnd á hátíðinni sem 10th Edition Special Programme.

Að auki er búið að tilkynna þá framleiðendur sem taka þátt í samframleiðslumarkaði Les Arcs þetta árið, en verkefni Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svar við Bréfi Helgu (Reply to a Letter from Helga), er eitt af þeim verkefnum sem urðu fyrir valinu. Samframleiðslumarkaðurinn veitir framleiðendum tækifæri til að efla tengslanet sitt ásamt því að peningaverðlaun eru í boði fyrir eitt verkefnanna sem úthlutað er af ArteKino Festival.

Ása Helga Hjörleifsdóttir er einnig leikstjóri kvikmyndarinnar Svanurinn sem var heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto í september 2017. Stuttu síðar var hún valin besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Kaíró í Egyptalandi, einni af fáum „A“ kvikmyndahátíðum heimsins. Undir lok árs 2017 var Ása Helga Hjörleifsdóttir valin besti leikstjórinn á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Kolkata á Indlandi.  

Nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast á heimasíðu Les Arcs