Um KMÍ
Á döfinni

15.3.2021

Hildur Guðnadóttir hlýtur Grammy verðlaunin fyrir Joker

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir heldur sigurgöngu sinni áfram, en í gærkvöld vann hún til Grammy-verðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. Verðlaunin eru í flokki tónlistar fyrir myndræna miðla. Þetta er í annað skiptið sem Hildur hlýtur Grammy-verðlaun en á síðasta ári vann hún til þessa sömu verðlauna fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl.

Hildur hefur sópað til sín verðlaunum að undanförnu og þar ber hæst að nefna Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker og braut hún þar með blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarinn og fjórða konan frá upphafi sem vinnur verðlaunin í flokki frumsamdar kvikmyndatónlistar.

Hildur hefur einnig unnið til BAFTA verðlauna fyrir tónlist sína í myndinni Joker sem og Critics‘ Choice og Golden Globe fyrir sömu mynd. Þá hlaut einnig hún Emmy, Grammy og sjónvarpsverðlaun BAFTA fyrir tónlist sína í Chernobyl.


Photo credit: Nick Agro / ©A.M.P.A.S.