Um KMÍ
Á döfinni

26.10.2020

Hildur Guðnadóttir valin besta kvikmyndatónskáldið á World Soundtrack Awards

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og Óskarsverðlaunahafi, vann á dögunum til verðlauna sem besta kvikmyndatónskáldið fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker á World Soundtrack Awards, sem eru á vegum kvikmyndahátíðarinnar í Gent í Belgíu. Verðlaunaafhendingin fór fram í stafrænu formi þann 24. október.

Í þakkarræðu sem birt eru á Facebook-síðu verðlaunanna segir Hildur það mikinn heiður að vera veitt verðlaunin og að hún vildi óska þess að hún gæti verið í Gent til þess að taka við verðlaununum. Sökum kórónuveirunnar væri það hins vegar ekki möguleiki.

https://www.facebook.com/watch/?v=717499409115595

„Ég held að þetta ár hafi haft eitthvað annað í huga fyrir okkur og við verðum bara að gera það besta úr aðstæðunum.“

Hildur þakkaði þá Todd Phillips, leikstjóra Joker, og Joaquin Phoenix, aðalleikara myndarinnar, fyrir listrænt framlag sitt og vináttu.

„Ég vil líka þakka fólkinu á bak við mínar senur. Fólkinu sem hélt öllu saman, hélt geðheilsu minni í lagi og fólkinu sem ég gæti ekki starfað án,“ sagði Hildur og þakkaði umboðsmanni sínum, fjölmiðlafulltrúum, aðstoðarmanni sínum, móður, stjúpföður, syni sínum og „síðast en ekki síst“ eiginmanni sínum.

„Ég sendi öllum þarna úti ástarkveðjur og vona að þið séuð nærri ástvinum ykkar, hvort sem það er í persónu eða rafrænt og ég vona að þið séuð örugg. Takk aftur fyrir, takk.“

Hildur Guðnadóttir hefur sópað til sín verðlaunum að undanförnu og þar ber hæst að nefna Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker og braut hún þar með blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarinn og fjórða konan frá upphafi sem vinnur verðlaunin í flokki frumsamdar kvikmyndatónlistar.

Hildur hefur einnig unnið til BAFTA verðlauna fyrir tónlist sína í myndinni Joker sem og Critics‘ Choice og Golden Globe fyrir sömu mynd. Þá hlaut hún Emmy, Grammy og sjónvarpsverðlaun BAFTA fyrir tónlist sína í Chernobyl.


Photo credit: Nick Agro / ©A.M.P.A.S.