Um KMÍ
Á döfinni

10.2.2020

Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaun

Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker og braut blað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarinn og fjórða konan frá upphafi sem vinnur verðlaunin í flokki frumsamdar kvikmyndatónlistar. Hildur hlaut standandi lófatak þegar hún tók við verðlaununum.

Í þakkarræðu sinni hvatti Hildur allar þær konur sem finndu tónlistina óma innra með sér að hlusta á hjartað og láta í sér heyra því heimurinn þyrfti á þeim að halda.

Hildur Guðnadóttir hefur sópað til sín verðlaunum að undanförnu og vann nýlega BAFTA verðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker sem og Critics‘ Choice- GoldenGlobe fyrir sömu mynd og verðlaun á kvikmyndatíðinni í Feneyjum. Hún hlaut síðan Emmy og Grammy verðlaun fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Chernobyl.

Hildur er níundi Íslendingurinn sem er tilnefndur til Óskarsverðlauna. Árið 1983 var Sturla Gunnarsson tilnefndur fyrir After the Axe í flokki bestu heimildamyndarinnar. Friðrik Þór Friðriksson var tilnefndur fyrir Börn náttúrunnar í flokki bestu erlendu kvikmyndar árið 1992. Pétur Hlíðdal hefur verið tilnefndur tvisvar, árið 1996 fyrir fyrir hljóð ársins í kvikmyndinni Batman Forever og árið 2005 fyrir hljóðblöndun í kvikmyndinni The Aviator. Björk Guðmundsdóttir og Sjón voru tilnefnd fyrir lagið I‘ve Seen it All úr kvikmyndinni Dancer in the Dark árið 2001. Rúnar Rúnarsson og Þórir Snær Sigurjónsson kvikmyndagerðarmenn hlutu svo tilnefningu árið 2006 fyrir stuttmyndina Síðasti bærinn. Jóhann Jóhannsson var tilnefndur árin 2015 og 2016 fyrir tónlist sína í kvikmyndunum The Theory of Everything og Sicario.

Í flokki Hildar voru tilnefndir Thomas Newman fyrir 1917, Mich­ael Giacchino fyrir Jojo Rabbit, Alex­andre Des­plat Little Women og John Willi­ams Star Wars: Rise of Skywal­ker.

Kvikmyndamiðstöð Íslands óskar Hildi innilega til hamingju. 

Photo credit: Nick Agro / ©A.M.P.A.S.