Um KMÍ
Á döfinni
  • Hjartasteinn

21.8.2017

Hjartasteinn í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin – La Chana einnig á lista

Hjartasteinn, hin sigursæla kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, er ein af 51 kvikmynd í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. La Chana, spænsk/íslensk/bandaríska heimildamyndin sem er meðframleidd af Grétu Ólafsdóttur og Susan Muska fyrir Bless Bless, er ein af 15 heimildamyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.

Tilkynnt verður um tilnefningar þann 4. nóvember á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni og verðlaunaafhendingin fer fram í Berlín þann 9. desember.

Hjartasteinn hefur farið sigurför um heiminn síðan hún var heimsfrumsýnd á Venice Days hluta kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum í ágúst 2016 og unnið til alls 37 alþjóðlegra verðlauna, auk  níu Edduverðlauna í febrúar 2017.

La Chana var heimsfrumsýnd á IDFA heimildamyndahátíðinni í nóvember 2016, þar sem hún vann til áhorfendaverðlauna. Hún hefur síðan þá tekið þátt á fjölda hátíða, þar á meðal DOK Leipzig í Þýskalandi og Hot Docs í Toronto í Kanada.

Þá er hin finnska Tom of Finland, sem er meðframleidd af Ingvari Þórðarsyni, einnig ein af þeim 51 kvikmyndum sem eru í forvali. Tom of Finland inniheldur frumsamda tónlist eftir Hildi Guðnadóttur og skartar Þorsteini Bachmann í aukahlutverki.

Lista yfir tilnefningar til leikinna kvikmynda ásamt nánari upplýsingum um hverja mynd er að finna hér.

Lista yfir tilnefningar til heimildamynda ásamt nánari upplýsingum um hverja mynd er að finna hér.