Um KMÍ
Á döfinni

3.4.2017

Hjartasteinn vann aðalverðlaun Febiofest í Tékklandi

Hjartasteinn, hin margverðlaunaða kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, bætti við sig verðlaunum um nýliðna helgi. Hún vann þá til aðalverðlauna Febiofest, alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Prag í Tékklandi. Guðmundur Arnar var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.

Þetta er þriðja árið í röð sem íslensk kvikmynd vinnur til aðalverðlauna Febiofest hátíðarinnar; Þrestir eftir Rúnar Rúnarsson vann þau í fyrra og Vonarstræti vann þau árið 2015.

Hjartasteinn hefur nú unnið til 14 alþjóðlegra verðlauna á árinu ásamt því að vinna til níu Edduverðlauna í febrúar. Samtals hefur myndin unnið til 27 alþjóðlegra verðlauna frá því hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Feneyjum í ágúst 2016, þar sem hún vann sín fyrstu verðlaun. Auk þess vann hún til þrennra verðlauna í netkosningu Cinema Scandinavia vefritsins.

Nánari upplýsingar um Hjartastein er að finna á Facebook síðu myndarinnar og á Kvikmyndavefnum.