Um KMÍ
Á döfinni

14.9.2020

Humarsúpa valin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í San Sebastian

Humarsúpa, spænsk/íslensk/litháísk heimildamynd undir leikstjórn Pepe Andreu og Rafael Molés, hefur verið valin til þátttöku í Zinemira keppni hinnar virtu San Sebastian hátíðar. San Sebastian hátíðin er ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum í heiminum og fer fram í Donostia-San Sebastián á Spáni frá 18. – 26. september.

Litli veitingastaðurinn á bryggjunni í Grindavík er sálin í þorpinu, athvarf gamalla sjómanna, músíkanta og menningarvita. Þegar erlendir ferðamenn uppgötva staðinn og streyma að til að upplifa stemninguna, kaupa fjárfestar staðinn og færa út kvíarnar. Þá er spurning hvort sálin í Bryggjunni fylgi með.

Pepe Andreu og Rafael Molés leikstýrðu myndinni og handritið skrifuðu Pepe Andreu, Rafael Molés, Ólafur Rögnvaldsson og Arunas Matelis. Framleiðendur eru Pepe Andreu og Rafael Molés fyrir Suica Films og meðframleiðendur eru José Luis Rubio fyrir Rec Grabaketa Estudioa, Ólafur Rögnvaldsson fyrir Axfilms og Algimanté Mateliene fyrir Studio Nominum.

Allar nánari upplýsingar um San Sebastian hátíðina má finna hér