Um KMÍ
Á döfinni

21.5.2019

Hvítur, hvítur dagur hlaut frábærar viðtökur í Cannes

Hvítur, hvítur dagur, önnur kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar, var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, þann 16. maí. Viðtökurnar á sýningunni voru frábærar þar sem aðstandendur myndarinnar hlutu langvarandi standandi lófatak. Mikill fjöldi aðstandenda var viðstaddur sýninguna, en á meðal leikara voru það Ingvar Sigurðsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson. Elma Stefanía Ágústsdóttir og Þór Hrafnsson Tulinius.

Fyrstu dómar myndarinnar hafa í kjölfarið litið dagsins ljós og eru þeir afar lofsamlegir, t.a.m. frá hinum virtu kvikmyndatímaritum CineuropaScreen International og The Hollywood Reporter.

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Hvítum, hvítum degi. Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir Join Motion Pictures og einn af yfirframleiðendum er Guðmundur Arnar Guðmundsson, en myndin er íslensk/dönsk/sænsk samframleiðsla. Meðframleiðendur eru Katrin Pors, Mikkel Jersin og Eva Jakobsen fyrir Snowglobe, Nima Yousefi fyrir Hobab og Anthony Muir fyrir Film i Väst.

Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sér um klippingu myndarinnar. Hljóðhönnuður myndarinnar er Lars Halvorsen, leikmyndahönnuður Hulda Helgadóttir og tónlist er eftir Edmund Finnis.

Í kjölfar sýningarinnar hefur New Europe Film Sales, sem fer með sölu og dreifingu erlendis á myndinni, fengið mörg tilboð og þegar selt myndina til m.a. Póllands, Noregs, Sviss, Tékklands, Slóvakíu og Grikklands. Með sölu og dreifingu erlendis fer New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com).

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september næstkomandi.

©Ljósmynd Pierre Caudevelle, birt með leyfi La Semaine de la Critique