Um KMÍ
Á döfinni

2.12.2019

Hvítur, hvítur dagur hlýtur þrenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Torino á Ítalíu

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur hvítur dagur, vann um helgina þrenn verðlaun á hinni virtu kvikmyndahátíð í Torino á Ítalíu. Hátíðin var haldin í 37. sinn dagana 22. - 30. nóvember og var Julius Krebs Damsbo, klippari myndarinnar, viðstaddur hátíðina og tók á móti verðlaununum fyrir hönd aðstandenda myndarinnar. 

Myndin hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar fyrir bestu kvikmyndina og þar með verðlaunafé að upphæð 18.000 evrur. Einnig vann myndin AVANTI! verðlaunin sem gefa myndinni betri dreifingu á Ítalíu, og sérstaka dómnefndarviðurkenningu fyrir besta handrit.

Hvítur, hvítur dagur hefur nú unnið samtals tólf verðlaun síðan hún var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes síðastliðinn maí. Mikið ferðalag er einnig framundan hjá myndinni en hún kom nýlega í kvikmyndahús í Noregi og Sviss, auk þess sem hún mun hefja sýningar í Danmörku þann 5.desember.

Þá er Ingvar E. Sigurðsson tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikara í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í myndinni ásamt því að Hvítur, hvítur dagur er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 2020.

Nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Torino má finna á heimasíðu hátíðarinnar.