Um KMÍ
Á döfinni

20.8.2019

Hvítur, hvítur dagur í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin

Hvítur, hvítur dagur, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar, hefur verið valin sem ein af 46 kvikmyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár. 

Tilkynnt verður um tilnefningar þann 9. nóvember á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Sevilla á Spáni og verðlaunaafhendingin fer fram í Berlín þann 7. desember.

Hvítur, hvítur dagur segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd þann 6. september hér á landi, en myndin var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum þar sem hinn þjóðkunni Ingvar Sigurðsson var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Ingvar var einnig valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu síðastliðinn júni auk þess sem Hvítur, hvítur dagur var valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu. Myndin verður sýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni í byrjun september.

Lista yfir tilnefningar ásamt nánari upplýsingum um hverja mynd er að finna hér

Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Árið 2020 mun hátíðin vera haldin á Íslandi.