Hvítur, hvítur dagur og Síðasta haustið á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary í Tékklandi er nú í fullum gangi og stendur fram til 6. júlí. Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur tekur þátt í „Horizons“ hluta hátíðarinnar og heimildamyndin Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg er til keppni í heimildamyndahluta hátíðarinnar. Hátíðin er ein sú elsta í heiminum og er ein fárra svokallaðra „A“ hátíða. Er það því mikill heiður að vera valin til þátttöku á hátíðinni.
Í gærkvöldi var Síðasta haustið heimsfrumsýnd á hátíðinni þar sem hún hlaut góðar viðtökur. Uppselt var á sýninguna þar sem aðstandendur kynntu myndina og svöruðu spurningum áhorfenda.
Þá átti kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur tékkneska frumsýningu fyrir fullum sal á hátíðinni, en hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes fyrr á árinu. Nú þegar hefur Ingvar Sigurðsson, aðalleikari myndarinnar, hlotið tvenn verðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni.
Síðasta haustið fjallar um bændur sem bregða búi á Krossnesi í einum afskekktasta hreppi landsins, Árneshreppi á Ströndum. Þar hefur fjárbúskapur verið stundaður kynslóð fram af kynslóð í árafjölda og er bóndinn Úlfar jafn mikill hluti af landslaginu og Krossnesfjallið sjálft. Myndin spannar síðasta haustið þeirra Úlfars og konu hans Oddnýjar, sem smala fé sínu í réttir og enda með því sinn búskap í Krossnesi.
Leikstjóri er Yrsa Roca Fannberg og framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir. Framleiðslufyrirtæki eru Akkeri Films og Biti aptan bæði. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Carlos Vásquez Méndez og Federico Delpero Bejar sá um klippingu. Hljóðhönnuður var Björn Viktorsson, auk þess sem tónlist er eftir Gyðu Valtýsdóttur. Myndin er tekin á 16mm filmu, haustið 2016 í Árneshreppi á Ströndum þegar fjórir bændur af átta hættu búskap.
Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Hvítum, hvítum degi. Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.
Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir Join Motion Pictures og einn af yfirframleiðendum er Guðmundur Arnar Guðmundsson, en myndin er íslensk/dönsk/sænsk samframleiðsla. Meðframleiðendur eru Katrin Pors, Mikkel Jersin og Eva Jakobsen fyrir Snowglobe, Nima Yousefi fyrir Hobab og Anthony Muir fyrir Film i Väst.
Nánari upplýsingar um Karlovy Vary kvikmyndahátíðina má finna á heimasíðu hennar.