Um KMÍ
Á döfinni

29.7.2019

Hvítur, hvítur dagur vinnur til verðlauna í Motovun

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur eftir leikstjórann og handritshöfundinn Hlyn Pálmason var valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu síðastliðinn laugardag. 

Ingvar Sigurðsson aðalleikari myndarinnar tók á móti verðlaununum en hann hefur nú þegar hlotið tvenn verðlaun fyrir leik sinn í myndinni: á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu og kvikmyndahátíðinni í Cannes þar sem myndin var heimsfrumsýnd.  

Hvítur, hvítur dagur hefur hlotið mikið lof og fengið frábæra dóma hjá hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum á borð við Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter. Þá hafa gagnrýnendur farið fögrum orðum um leik Ingvars: „Ingimundur er heillandi og áhugaverður karakter, meistaralega dreginn upp af Ingvari Sigurðssyni“ segir t.a.m. í Screen International, og enn fremur að myndin sjálf sé „sjónrænt grípandi og áhrifamikil“.

Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.

Myndin er framleidd af Join Motion Pictures og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 6. september.