Um KMÍ
Á döfinni

3.9.2019

Íslendingar á Nordic Talents í Kaupmannahöfn

Nordic Talents er viðburður sem haldinn er á vegum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og Danska kvikmyndaskólans. Tilgangurinn með viðburðinum er fyrst og fremst að skapa vettvang þar sem hægt er að styrkja tengslanet meðal fagfólks á norðurlöndunum. Viðburðurinn fer fram í Kaupmannahöfn dagana 4.-5. september.

Grímar Jónsson, framleiðandi kvikmyndarinnar Héraðið, er hluti af dómnefnd í Nordic Talents keppninni í ár þar sem nýútskrifaðir nemar í kvikmyndagerð kynna verkefni sín. 15 verkefni eru kynnt frá nýútskrifuðum leikstjórum ásamt því að norrænir framleiðendur fá tækifæri til þess að kynna sig og verkefni sín. Í ár mun Katrín Björgvinsdóttir kynna lokamynd sína Dronning Ingrid, en Katrín hefur nýlega útskrifast úr leikstjóranámi frá Danska kvikmyndaskólanum.

Þá mun Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndanna Kona fer í stríð og Hross í oss, halda masterclass þar sem hann fer meðal annars yfir sköpunarferli sitt við gerð kvikmynda og velgengni og áhrifamátt kvikmynda á alþjóðavísu.

Nánari upplýsingar um Nordic Talents 2019 má finna á heimasíðu Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.