Um KMÍ
Á döfinni
  • Mynd: RÚV

7.6.2018

Íslendingar í lykilstöðum vinsælla bandarískra stórmynda

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Baltasars Kormáks, Adrift, var frumsýnd í Bandaríkjunum þann 1. júní og fór beint í þriðja sæti aðsóknarlistans. Myndin var forsýnd hérlendis 6. júní og verður svo frumsýnd 13. júní. Adrift er tólfta kvikmyndin sem Baltasar Kormákur leikstýrir en á meðal fyrri mynda hans eru 101 Reykjavík, Mýrin, Contraband, Djúpið, Everest og Eiðurinn ásamt því að vera einn af skapendum og leikstjórum sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð. Önnur sería Ófærðar verður frumsýnd í haust.

Í öðru sæti aðsóknarlistans í Bandaríkjunum er Deadpool 2, sem Elísabet Ronaldsdóttir klippir ásamt  Craig Alpert, Michael McCusker og Dirk Westervelt. Elísabet hefur starfað sem klippari um tveggja áratuga skeið og klippt fjölda bandarískra stórmynda í bland við íslenskar myndir og sjónvarpsþætti, þeirra á meðal Mýrina, Contraband, Djúpið, John Wick, Ófærð og Atomic Blonde.

Þess má einnig geta að Íslendingar koma sömuleiðis að myndinni í efsta sæti aðsóknarlistans í Bandaríkjunum, Solo: A Star Wars Story og myndinni í fjórða sæti listans, Avengers: Infinity War. Pétur Breki Bjarnason er einn af þeim sem sjá um stafrænar brellur Solo: A Stars Wars Story og Dagbjört Ósk Gunnarsdóttir er ein af þeim sem sjá um litun og myndgervingu (e. paint and rotoscopy) Avengers: Infinity War og Heiðrún Tinna Haraldsdóttir er ein af þeim sem sjá um tölvuvinnslu samsettra mynda (e. digital compositor) fyrir sömu mynd.