Um KMÍ
Á döfinni

17.9.2018

Íslendingar í stórum hlutverkum á alþjóðavettvangi

Líkt og undanfarin ár eru Íslendingar á hinum ýmsu sviðum kvikmyndagerðar áberandi um þessar mundir á alþjóðavettvangi. Þeirra á meðal eru leikararnir Hera Hilmarsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ólafur Darri Ólafsson, klipparinn Valdís Óskarsdóttir og tónskáldið Hildur Guðnadóttir.

Hera Hilmarsdóttir leikur aðalhlutverkið í stórmyndinni Mortal Engines, sem er m.a. skrifuð og framleidd af Peter Jackson, sem er þekktur fyrir að leikstýra Lord of the Rings og The Hobbit þríleikjunum. Myndin verður frumsýnd hérlendis og vestanhafs þann 14. desember næstkomandi.

Mortal Engines - stikla

Þá leikur Hera í sjónvarpsþáttaröðinni The Romanoffs eftir Matthew Weiner, skapara Mad Men sjónvarpsþáttaraðarinnar. The Romanoffs verður sýnd á Amazon Prime streymisveitunni  þann 12. október. Hera hefur haft í nógu að snúast undanfarin misseri. Hún leikur aðalhlutverkið ásamt Ben Kingsley í kvikmyndinni An Ordinary Man eftir Brad Silberling, leikur eitt aðalhlutverkanna ásamt Michiel Huisman, Josh Hartnett og Ben Kingsley í kvikmyndinni The Ottoman Lieutenant eftir Joseph Ruben og fer sömuleiðis með eitt aðalhlutverkanna í kvikmyndinni The Ashram eftir Ben Rekhi.

Jóhannes Haukur Jóhannesson hefur sömuleiðis látið að sér kveða undanfarið.  Hann leikur eitt af aðalhlutverkunum ásamt Kodi Smit-McPhee í kvikmyndinni Alpha eftir Albert Hughes. Myndin er nú í sýningum í kvikmyndahúsum hérlendis. Þá leikur hann eitt af aðalhlutverkunum í Netflix þáttaröðinni The Innocents ásamt Guy Pearce og fleirum.

Alpha - stikla

Jóhannes Haukur fer með hlutverk í The Sisters Brothers, nýjustu kvikmynd Jacques Audiard sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og skartar John C. Reilly, Joaquin Phoenix, Jake Gyllenhaal og Riz Ahmed í aðalhlutverkum . Jóhannes Haukur leikur einnig í nýjustu kvikmynd Richard Linklater, Where‘d You Go, Bernadette ásamt Cate Blanchett og Kristen Wiig og leikur ásamt Helen Mirren og Ian McKellen í The Good Liar eftir Bill Condon. Where‘d You Go, Bernadette og The Good Liar verða báðar frumsýndar á næsta ári. Jóhannes var nýverið staddur við tökur í Suður Afríku á ofurhetjumyndinni Bloodshot, sem skartar Vin Diesel í aðalhlutverki og er áætlað að frumsýna árið 2020.

Valdís Óskarsdóttir klippir nýjustu kvikmynd danska leikstjórans Thomas Vinterberg, Kursk, sem var nýverið heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og skartar Matthias Schoenaerts, Michael Nyqvist, Léa Seydoux, Colin Firth og Max von Sydow í aðalhlutverkum. Vinterberg er þekktur fyrir að leikstýra kvikmyndum á borð við Jagten, Submarino og Festen. Valdís og Vinterberg hafa átt gjöfulu samstarfi að fagna í gegnum árin, þar sem Valdís klippti meðal annarra Submarino og Festen.

Ólafur Darri Ólafsson heldur áfram að gera það gott í Hollywood. Á síðasta ári lék hann eitt af aðalhlutverkunum í annarri seríu Netflix þáttaraðarinnar Lady Dynamite og fór með stórt hlutverk í þáttaröðinni Emerald City sem sýnd var á NBC sjónvarpsstöðinni. Það sem af er ári hefur hann farið með hlutverk í kvikmyndunum The Meg eftir Jon Turteltaub og The Spy Who Dumped Me eftir Sussanna Fogel, sem eru báðar um þessar mundir í sýningum í kvikmyndahúsum hérlendis.

Lady Dynamite - stikla fyrir seríu 2

Ólafur Darri fer með hlutverk í Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald eftir David Yates, sem skartar m.a. Eddie Redmayne, Katherine Waterston, Johnny Depp og Jude Law í helstu hlutverkum og verður frumsýnd hérlendis í nóvember. Hann leikur í kvikmyndinni Keepers eftir Kristoffer Nyholm með Gerard Butler í aðalhlutverki, sem áætlað er að verði gefin út á þessu ári og fer með hlutverk í Murder Mystery eftir Kyle Newacheck, sem skartar Jennifer Aniston, Gemmu Arterton og Adam Sandler í aðalhlutverkum og verður frumsýnd á næsta ári. Um þessar mundir er hann að tala inn á teiknimyndina How to Train Your Dragon: The Hidden World eftir Dean DeBlois, þriðju myndina í hinum vinsæla teiknimyndabálki sem áætlað er að frumsýna í mars á næsta ári.

Hildur Guðnadóttir tónskáld hefur samið tónlistina við fjölda stórra kvikmynda undanfarið. Á síðasta ári samdi hún tónlistina fyrir Journey‘s End eftir Saul Dibb með Paul Bettany  og Sam Claflin í aðalhlutverkum. Á þessu ári hefur Hildur samið tónlistina fyrir Sicario: Day of the Soldado eftir Stefano Sollima, með Benicio Del Toro og Josh Brolin í aðalhlutverkum og  Mary Magdalene eftir Garth Davis, með Rooney Mara, Joaquin Phoenix og Chiwetel Ejiofor í aðalhlutverkum. Hildur samdi tónlistina að Mary Magdalene ásamt Jóhanni Jóhannssyni heitnum, samstarfsmanni sínum til fjölda ára.

Tónlistina úr Sicario: Day of the Soldado og Mary Magdalene er að finna á Spotify síðu Hildar.

Hildur mun næst semja tónlistina við Chernobyl , sjónvarpsþáttaröð úr smiðju HBO og Sky sem mun skarta Stellan Skarsgård og Emily Watson í aðalhlutverkum og er áætlað að frumsýna á næsta ári. Þá mun hún semja tónlistina við stórmyndina Joker eftir Todd Phillips, með Joaquin Phoenix og Robert De Niro í aðalhlutverkum, sem einnig er áætlað að frumsýna á næsta ári.

22 July eftir Paul Greengrass, sem hefur m.a. leikstýrt þremur kvikmyndum um hasarhetjuna Jason Bourne ásamt Captain Phillips, United 93 og Bloody Sunday, var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir skömmu og verður sýnd á Netflix þann 10. október næstkomandi. Myndin var tekin upp að hluta á Íslandi og hlaut 25% endurgreiðslu á framleiðslukostnaði sem féll til hér á landi. Margrét Einarsdóttir er búningahönnuður myndarinnar og Tinna Ingimarsdóttir sér um förðun. Finni Jóhannsson sér um framleiðslustjórn myndarinnar, Árni Gústafsson hljóðblandar og Marta Luiza Macuga sér um leikmyndahönnun á Íslandi. Fjöldi annarra Íslendinga kom að framleiðslu myndarinnar.

Suspiria eftir Luca Guadagnino, sem leikstýrði m.a. Call Me By Your Name, var einnig heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Halla Þórðardóttir, dansari hjá Íslenska dansflokknum fer með hlutverk dansara í myndinni, auk þess sem hún þjálfaði aðalleikkonurnar í dansi. Í aðalhlutverkum eru Dakota Johnson, Tilda Swinton og Chloë Grace Moretz.