Um KMÍ
Á döfinni

8.1.2020

Íslenskar myndir á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg - Héraðið í aðalkeppni

Kvikmyndahátíðin í Gautaborg verður haldin dagana 24. janúar til 3. febrúar og fer nú fram í 43. skipti. Hátíðin, sem er sú stærsta á Norðurlöndunum sýnir 357 myndir frá 89 löndum. Tilkynnt hefur verið um fjórar myndir frá Íslandi sem verða sýndar á hátíðinni í ár, kvikmyndirnar Héraðið, Agnes Joy og Hvítur, hvítur dagur og sjónvarpsþáttaröðin Pabbahelgar.

Héraðið eftir Grím Hákonarson er meðal átta norrænna mynda sem keppa um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd á hátíðinni. Drekaverðlaunin eru einkar eftirsótt verðlaun, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna. Héraðið var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september á seinasta ári og hefur ferðast víða síðan, meðal annars hefur hún verið sýnd á kvikmyndahátíðum í Evrópu, Bandaríkjunum, Indlandi, Kína og víðar.

Agnes Joy undir leikstjórn Silju Hauksdóttur og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason munu taka þátt í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar. Þá verða einnig þættir úr Pabbahelgum sýndir sem hluti af sjónvarpsþáttahluta Nordic Light sýningarraðarinnar, en Nanna Kristín Magnúsdóttir hefur verið tilnefnd til verðlauna fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndunum fyrir sjónvarpsþáttaröðina. Verðlaunin veitir Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn (Nordisk Film & TV Fond) og er Nanna Kristín á meðal fimm handritshöfunda sem tilnefndir eru. 

Allar nánari upplýsingar um kvikmyndahátíðina í Gautaborg má finna á heimasíðu hennar.