Um KMÍ
Á döfinni

27.8.2020

Íslenskar myndir á Nordisk Panorama

Stutt- og heimildamyndahátíðin Nordisk Panorama fer fram að mestu leiti í stafrænu formi dagana 17.-27. september næstkomandi. Hátíðin er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.

Veitt eru verðlaun fyrir bestu heimildamyndina, stuttmyndina og björtustu vonina (Best New Nordic Voice), auk áhorfendaverðlauna. Hliðarkeppni af stutt- og heimildamyndakeppnunum er svo Young Nordics þar sem keppa myndir sem sérstaklega ætlaðar börnum. Tilkynnt hefur verið um þær myndir sem valdar hafa verið í aðalkeppnir hátíðarinnar, ásamt þeim verkefnum sem taka þátt í Nordisk Panorama Forum.

Í ár munu myndirnar Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson og Síðasta haustið eftir Yrsu Roca Fannberg keppa um „Best Nordic Documentary“ verðlaunin og eru alls 14 norrænar heimildamyndir sem keppa um titilinn og 11.000€ verðlaunafé. 

EldurBergmal

Bergmál er ljóðræn kvikmynd um íslensk samfélag í aðdraganda jóla og endar á nýársdag. Bergmál er til­nefnd til Kvik­mynda­verðlauna Norður­landaráðs fyrir hönd Íslands. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru mjög eftirsótt verðlaun sem 17 kvikmyndir hafa hlotið síðan verðlaunin voru fyrst afhent árið 2002, en frá árinu 2005 hafa þau verið veitt árlega. Bergmál hefur hingað til hlotið sex alþjóðleg kvikmyndaverðlaun síðan að myndin var heimsfrumsýnd og vann sín fyrstu verðlaun í aðalkeppni hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Locarno árið 2019.

Framleiðendur myndarinnar eru Lilja Ósk Snorradóttir, Live Hide og Rúnar Rúnarsson.

TheLastAutumnHerdingJPG

Síðasta haustið undir leikstjórn Yrsu Roca Fannberg var heimsfrumsýnd á hinni virtu kvikmyndahátíð Karlovy Vary árið 2019. Það húmar að hausti þar sem vegurinn endar að Krossnesi í Árneshreppi. Þar er sveitabær Úlfars og eiginkonu hans og fjölskyldan kemur til þeirra til að aðstoða við smölun. Barnabörnin koma úr borginni til að taka þátt en hjónin hafa ákveðið að bregða búi svo þetta er síðasta haustið sem þau smala. Hér er á ferðinni einstök innsýn inn í samband mannsins við náttúruna og dýrin. Í þessari heimildarmynd verðum við vitni að umbreytingu sem kallast á við söguna og alla bændurna sem standa í sömu sporum í fortíð og framtíð.

Framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir og framleiðslufyrirtæki eru Akkeri Films og Biti aptan bæði. 

 

Screen-Shot-2019-09-20-at-10.18.51

Stuttmyndin Lokavals eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur valin til þátttöku á Nordic Shorts“ og er hún á meðal 22 norrænna stuttmynda sem keppa um 6.000€ verðlaunafé. Auk þess er sigurmyndin gjaldgeng í tilnefningu á stuttmyndahluta Óskarsverðlaunahátíðarinnar.

Half-Elf

Heimildamyndin Hálfur Álfur eftir Jón Bjarka Magnússon var valin til keppni um björtustu vonina (Best New Nordic Voice). Hálfur Álfur er á meðal 18 stuttmynda sem keppa um 5.000€ verðlaunafé.

MainStillYesPeopleÞá tekur stuttmyndin Já-fólkið þátt í Young Nordics hluta hátíðarinnar, þar sem yngstu áhorfendurnir sjá um að velja eina af þrettán myndum sem vinningsmynd flokksins.  

Nordisk Panorama Forum

Alls munu þrjú íslensk verkefni í vinnslu taka þátt í Nordisk Panorama Forum, sem fer fram sem hluti af Nordisk Panorama hátíðinni frá 18. - 23. september. Tvö af verkefnunum sem voru valin til þátttöku verða kynnt í Pitch hluta vettvangsins. Það eru heimildamyndirnar Turninn undir leikstjórn Ísoldar Uggadóttur og Band: This is Not a Band eftir Álfrúnu Örnólfsdóttur, sem tekur þátt undir formerkjum Wildcard Iceland. Þá mun heimildamyndin Pathum eftir Helga Felixson taka þátt sem Observer+.

Nordisk Forum er vettvangur fyrir heimildamyndagerðarfólk sem vill komast í samband við fjölda norrænna og alþjóðlegra aðila frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og ýmsum sjóðum með það fyrir augum að verða heimildamyndum sínum úti um fjármagn.

 

Nordisk Panorama hátíðin nýtur meðal annars stuðnings kvikmyndamiðstöðva allra Norðurlandanna, Norðurlandaráðs og Creative Europe áætlunar ESB.