Um KMÍ
Á döfinni

17.8.2017

Íslenskir kvikmyndadagar í Stokkhólmi

Íslenskir kvikmyndadagar munu fara fram í Stokkhólmi dagana 25. – 27. ágúst, í Zita kvikmyndahúsinu. Sýningarröðin fer nú fram annað árið í röð. Sýnt verður úrval nýrra og nýlegra íslenskra mynda.

Myndirnar sem um ræðir eru Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, sem farið hefur sigurför um heiminn á kvikmyndahátíðum, Rökkur eftir Erling Óttar Thoroddsen, sem hefur verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða og Eiðurinn eftir Baltasar Kormák, þar sem um er að ræða Svíþjóðarfrumsýningu.

Einnig verður sýnt úrval stuttmynda eftir Guðmund Arnar Guðmundsson og Hlyn Pálmason, ásamt því að heimildamyndin Amma Lo-fi eftir þau Orra Jónsson, Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Ingibjörgu Birgisdóttur verður sýnd.

Dagskráin er skipulögð af Ara Allanssyni sem rekur Air d'Islande, íslensku menningarhátíðina sem haldin hefur verið í París undanfarin ár við góðan orðstír, Sendiráði Íslands í Svíþjóð, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Íslandsstofu.

Sem fyrr segir er þetta annað árið í röð sem staðið er að íslenskum kvikmyndadögum í Stokkhólmi. Markmiðið með sýningarröðinni er að hún verði reglulegur viðburður í menningardagatali Stokkhólmsbúa og annara Svía, ásamt því að bjóða fjölmiðlafólki og sænskum dreifingaraðilum upp á að sjá það nýjasta í íslenskri kvikmyndagerð.