Um KMÍ
Á döfinni

7.5.2019

Íslenskur kvikmyndafókus í Kanada: „Wayward Heroes: A Survey of Modern Icelandic Cinema“

Tíu íslenskar kvikmyndir verða í brennidepli á íslenskum kvikmyndafókus sem TIFF, ein virtasta kvikmyndastofnun í Norður-Ameríku, stendur fyrir í samvinnu við Kvikmyndamiðstöð Íslands, Íslandsstofu og Iceland Naturally dagana 10.-22. maí.

Kvikmyndafókusinn einblínir á röð íslenskra kvikmynda sem varpa ljósi á þróun kvikmyndagerðar á Íslandi síðustu fjóra áratugi. Sérstakir gestir verða leikstjórarnir Friðrik Þór Friðriksson, Kristín Jóhannesdóttir og Róbert I. Douglas, en myndir eftir þau eru á meðal þeirra kvikmynda sem verða sýndar.

Sýningaröðinni er stjórnað af Steve Gravestock, einum af dagskrárstjórum alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto, og fer fram í TIFF Bell Lightbox. Í kjölfarið var óskað eftir sömu sýningarröð í Vancouver (The Cinematheque), Regina (Regina Public Library) og Winnipeg (Cinematheque). Þess má einnig geta að Ísland er í forgrunni í nýrri bók eftir Steve Gravestock sem mun bera heitið „A History of Icelandic Film“.

Myndirnar tíu sem verða sýndar á fókusnum eru eftirfarandi:

Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson, 1991 (sýnd föstudaginn 10. maí)

Svo á jörðu sem á himni eftir Kristínu Jóhannesdóttur, 1992 (sýnd laugardaginn 11. maí)

Íslenski draumurinn eftir Róbert I. Douglas, 2000 (sýnd sunnudaginn 12. maí)

Gullsandur eftir Ágúst Guðmundsson, 1984 (sýnd fimmtudaginn 16. maí)

Mýrin eftir Baltasar Kormák, 2006 (sýnd föstudaginn 17. maí)

Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson, 1984 (sýnd laugardaginn 18. maí)

Nói Albínói eftir Dag Kára, 2003 (sýnd sunnudaginn 19. maí)

Vonarstræti eftir Baldvin Z, 2014 (sýnd þriðjudaginn 21. maí)

Kristnihald undir jökli eftir Guðnýju Halldórsdóttur. 1989 (sýnd miðvikudaginn 22. maí)

Hrútar eftir Grím Hákonarson, 2015 (sýnd miðvikudaginn 22. maí)

Um TIFF

TIFF er ein virtasta kvikmyndastofnun í Norður-Ameríku og er í fararbroddi þegar kemur að kvikmyndamenningu. TIFF stendur meðal annars fyrir alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto, sem er fjölsóttasta hátíð heims en um hálf milljón gesta sækir hana að jafnaði í hverjum septembermánuði og um fimm þúsund manns úr alþjóðlegum kvikmyndaheimi. Hundruðir kvikmynda af fjölbreyttu tagi eru á dagskrá hátíðarinnar hverju sinni í fjölmörgum flokkum. Hátíðin var stofnuð 1976 og hefur fyrir löngu unnið sér sess sem einskonar hlið að Ameríkumarkaði kvikmynda, en öflugur markaður fer einnig fram á hátíðinni. Áhorfendaverðlaun hátíðarinnar þykja gjarnan gefa vísbendingu um velgengni á "verðlaunatímabilinu" svokallaða. TIFF á og rekur einnig Tiff Bell Lightbox sem heldur utan um fimm kvikmyndasali og stendur fyrir fjölda viðburða og sýninga.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu TIFF