Um KMÍ
Á döfinni

24.4.2020

Já-fólkið sýnd á alþjóðlegu teiknimyndahátíðinni í Annecy

Stuttmyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson hefur verið valin til þátttöku á alþjóðlegu teiknimyndahátíðina í Annecy , sem fer fram í stafrænni útgáfu dagana 15. - 30. júní. Vegna kórónuveirufaldursins hafa margar alþjóðlegar hátíðir brugðið á það ráð að færa sig yfir á stafrænt form, en Já-fólkið verður einnig sýnd á alþjóðlegu hátíðinni Internationales Trickfilm-Festival Stuttgart, sem fer fram í stafrænu formi dagana 5. – 10. maí.

Já-fólkið hefur fengið góðar viðtökur síðan hún var heimsfrumsýnd síðastliðinn janúar á Minimalen stuttmyndahátíðinni í Þrándheimi, Noregi. Þá hefur hún einnig verið valin til þátttöku á alþjóðlegu hátíðirnar San Fransisco International Film Festival í Bandaríkjunum, ANIFILM í Tékklandi og MONSTRA Festival í Portúgal. 

Já-fólkið er teiknimynd sem fjallar um íbúa í ónefndri blokk sem vakna einn vetrarmorgun og rútína hversdagsleikans tekur við - hvort sem það er vinnan, skólinn eða heimilislífið. Við fylgjum fólkinu í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Um kvöldið eru allir komnir heim og um blokkina ómar ýmist ástaratlot eða æpandi þögn sambandsleysis. 

Að lokum þarf hver og einn að horfast í augu við gjörðir dagsins. Þetta er gamansöm, hálf-þögul teiknimynd um fjötra vanans.