Um KMÍ
Á döfinni

15.10.2020

Kvikmyndagerð og Kvikindahátíð fyrir alla eldri bekki grunnskólanema

Öllum grunnskólanemum gefst nú tækifæri á að taka þátt í áhugaverðum og skapandi menningarverkefnum í gegnum verkefnið Listfyrir alla. Það verkefni er skipulagt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og tekur á sig ýmsar myndir en markmið þess er að velja og miðla listviðburðum af margbreytilegu tagi til barna og ungmenna um land allt.

Eitt af verkefnunum leggur sérstaka áherslu á kvikmyndagerð og miðlalæsi. Glænýtt námsefni er í boði sem ber heitið Kvikmyndagerð fyrir alla . Þar er lögð áhersla á virkrar þátttöku unglinga í elstu bekkjum grunnskóla og hefur námsefni verið gert aðgengilegt þar sem nemendur eru leiddir í gegnum það ferli að skrifa handrit og búa til stuttmynd. Þá gefst þeim tækifæri til að taka þátt í stuttmyndasamkeppni sem ber yfirskriftina Kvikindahátíð sem verður haldin 6. desember næstkomandi en umsóknarfrestur til þess að senda inn stuttmynd rennur út 23. nóvember. Námsefni um kvikmyndagerð fylgja þættir sem gefa innsýn í líf og starf sex íslenskra kvikmynda- og listamanna. Tilgangurinn er að efla miðlalæsi og kvikmyndamenntun og hvetja nemendur til þess að kynna sér kvikmyndagerð.

Með þessu átaki á að jafna aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag og einnig setja þeirra eigin sköpun og menningu í öndvegi.

Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum listfyriralla.is.