Um KMÍ
Á döfinni

23.4.2019

Kvikmyndahátíðin Verðlaun ungra áhorfenda verður haldin 5. maí. Öllum krökkum á aldrinum 12 - 14 ára boðið að taka þátt

Evrópska kvikmynda akademían (EFA) býður börnum á aldrinum 12 – 14 ára víðsvegar um Evrópu að taka þátt á kvikmyndahátíð sem meðlimir í dómnefnd. Hátíðin nefnist Verðlaun ungra áhorfenda (Young Audience Award) og fer fram samtímis í 35 löndum og Íslandi þar með talið, þann 5. maí næstkomandi og henni lýkur með verðlaunaafhendingu sem er sýnd í beinni útsendingu á yaa.europeanfilmawards.eu. Þrjár evrópskar myndir eru sýndar og velja krakkarnir bestu myndina.

Verðlaun ungra áhorfenda voru sett á koppinn árið 2012 fyrir tilstilli Evrópsku kvikmynda akademíunni. Kvikmyndamiðstöð Íslands í samvinnu við Bíó Paradís standa á bakvið hátíðina hér á landi en þetta er í annað sinn sem hún fer fram. Hátíðin verður haldin sem áður sagði þann 5. maí í Bíó Paradís og gert er ráð fyrir að dagskrá hefjist kl. 10:00 og lýkur henni með verðlaunahendingu sem hefst kl. 18:00 að íslenskum tíma.

Erla Stefánsdóttir, verkefnastjóri Nýsköpunarmiðju skóla- og frístundasviðs og Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu við Bíó Paradís munu leiða umræður eftir hverja mynd en sérstakir gestir eru leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir, leikstjórarnir Ása Helga Hjörleifsdóttir og Baltasar Kormákur. Krakkarnir taka síðan þátt í kosningu í lok dags þar sem besta myndin er valin. Deginum lýkur með verðlaunaafhendingu þar sem fulltrúar dómnefndar sem krakkarnir skipa, tilkynna niðurstöður kosninga hvers lands fyrir sig, í anda evrópsku söngvakeppninnar.

Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir börn til þess að kynnast evrópskri kvikmyndamenningu og að sýna myndir sem endurspegla raunveruleika ungmenna um alla Evrópu. Eins er stefnt að því að kveikja áhuga barnanna á evrópskum sögum, fólki, menningu og hvetja til samkenndar, skilnings og umburðarlyndis.

Boðið verður upp á hádegisverð, popp, ávexti og drykki yfir daginn.

Myndirnar þrjár sem dómnefnd EFA valdi að þessu sinni eru þessar:


FIGHT-GIRLFight Girl - Bo er ung og hæfileikarík stúlka sem verður oft heitt í hamsi þegar hún æfir Kick box. Það eru erfiðleikar í hjónabandi foreldra hennar sem taka á hana en hún verður að læra að stjórna skapi sínu og sætta sig við það að hún geti kannski ekki stjórnað öllu. 

Los_Bando

Los Bando - er léttgeggjuð vegamynd (e. road move) um unga hljómsveit frá Noregi sem leggur af stað í ferðalag og reynir að taka þátt í meistarakeppni Noregs í rokki. Þeir eru þó í kapp við tímann, foreldra sína og lögregluna. 

Old_BoysOld Boys - er byggð á sögu Cyrano de Bergerac þar sem vandræðalegi nemandinn, með fjöruga ímyndunaraflið, hjálpar myndarlegu hetjunni í sögunni, sem er ekki sá skarpasti, að vingast við dóttur frönskukennarans sem er í heimsókn. 

Hátíðin er fyrir alla krakka á aldrinum 12 - 14 ára og aðgangur ókeypis. 

Til að skrá þátttakendur er hægt að senda tölvupóst á svavaloa@kvikmyndamidstod.is fyrir 2. maí 2019.

 

Logos