Um KMÍ
Á döfinni

31.5.2019

Kvikmyndirnar Undir halastjörnu og Lof mér að falla sýndar á alþjóðlegu Molodist kvikmyndahátíðinni í Kænugarði

Kvikmyndirnar Undir halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússon og Lof mér að falla eftir Baldvin Z. verða sýndar á alþjóðlegu Molodist  kvikmyndahátíðinni sem fer nú fram dagana 25. maí – 2. júní í Kænugarði. Myndirnar eru í flokki Scandinavian Panorama ásamt öðrum sex kvikmyndum en kvikmyndahátíðin var stofnuð árið 1970 og ein er af þekktari hátíðum í Austur Evrópu. 

Undir halastjörnu er byggð á svokölluðu líkfundarmáli sem gerðist á austfjörðum árið 2004. Hún fjallar um tvo eistneska menn sem koma hingað til lands með drauma um betra líf. 

Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir og skrifar handritið en myndin er framleidd af Friðriki Þór Friðrikssyni, Kristni Þórðarsyni, Leifi B. Dagfinnssyni og Ara Alexander Ergis Magnússyni og meðframleidd af hinum eistnesku Evelin Soosar-Penttilä og Riina Sildos, hinum norska Egil Ødegård og Jörundi Rafni Arnarsyni og Jóhanni G. Jóhannssyni. Í aðalhlutverkum eru Pääru Oja, Kaspar Velberg, Atli Rafn Sigurðarson og Tómas Lemarquis. Davíð Alexander Corno klippir myndina, Tómas Örn Tómasson stýrir kvikmyndatöku og Gyða Valtýsdóttir semur tónlist myndarinnar.

Lof mér að fjalla er eftir Baldvin Z en myndin segir frá hinni 15 ára Magneu sem kynnist hinni 18 ára Stellu og við það breytist allt. Magnea laðast að hispurslausu lífi Stellu og þróar Magnea sterkar tilfinningar til hennar sem Stella notfærir sér til eigin hagsbóta. Stella leiðir Magneu inn í heim fíkniefna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þær báðar. 12 árum síðar liggja leiðir þeirra óvænt saman og verður uppgjör á milli þeirra óumflýjanlegt.

Myndin er framleidd af Júlíus Kemp og Ingvari Þórðarsyni og meðframleidd af Markus Selin, Jukka Helle og Sophie Mahlo. Í aðalhlutverkum eru Elín Sif Halldórsdóttir, Eyrún Björk Jakobsdóttir, Þorsteinn Bachmann, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir. 

Hægt að nálgast frekari upplýsingar hér.