Um KMÍ
Á döfinni

6.11.2017

La Chana tilnefnd sem besta heimildamyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum

La Chana, spænsk/íslensk/bandaríska heimildamyndin undir leikstjórn Lucija Stojevic, hefur verið tilnefnd sem besta heimildamyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Myndin er ein af aðeins fimm myndum sem eru tilnefnd til verðlaunanna og því um mikinn heiður að ræða. Verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 9. desember næstkomandi í Berlín.

La Chana er meðframleidd af Grétu Ólafsdóttur og Susan Muska fyrir Bless Bless Productions.

La Chana fjallar um sígauna flamenco dansarann Antonia Santiago Amador, þekkt sem La Chana, katalónska konu sem var ein stærsta stjarna flamenco heimsins á 7. og 8. áratug síðustu aldar. La Chana er fylgt eftir í aðdraganda lokasýningar hennar árið 2013 og farið í saumana á því hvað það var sem leiddi til þess að hún hætti skyndilega á hátindi ferilsins og kom ekki fram í 30 ár.

La Chana vann áhorfendaverðlaun hinnar virtu heimildamyndahátíðar IDFA í Amsterdam síðla árs 2016 og hefur verið valin til þátttöku á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða, þar á meðal Hot Docs heimildamyndahátíðinni í Toronto, Sheffield Doc/Fest á Englandi og RIFF hérlendis.

Nánari upplýsingar um myndina er að finna á heimasíðu framleiðslufyrirtækisins Noon Films, heimasíðu New York Women in Film and Television og á Kvikmyndavefnum.