Um KMÍ
Á döfinni

15.1.2020

Last and First Men eftir Jóhann Jóhannsson valin á Berlínarhátíðina

Last and First Men, kvikmynd eftir Jóhann Jóhannsson heitinn, hefur verið valin til þátttöku í Berlinale Special hluta alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Myndin, sem er leikstýrt af Jóhanni, byrjaði sem kvikmynda- og tónverk byggt á samnefndri vísindaskáldsögu eftir Olaf Stapledon og fjallar um mannkyn framtíðar. Verkið var frumflutt með lifandi tónlist á Manchester Festival árið 2017. Myndin mun vera heimsfrumsýnd á hátíðinni sem  fer fram í 70. skipti dagana 20. febrúar - 1. mars.

JohannJohannsson_1579011196686

Jóhann átti að baki mjög farsælan feril og spilaði meðal annars í hljómsveitunum Daisy Hill Puppy Farm, HAM, Lhooq, Apparat Organ Quartet og the Kitchen Motors Collective.

Hann samdi tónlist við fjöldan allan af íslenskum kvikmyndaverkum, síðast sjónvarpsþættina Ófærð en einnig 16 ár að sumri, Jöklarinn, Blikkið - Saga Melavallarins, Svartir englar, Bræðrabylta, Blóðbönd, Dís, Hrein og bein. Sögur úr íslensku samfélagi, Maður eins og ég, ERRÓ - norður - suður - austur - vestur, Óskabörn þjóðarinnar, Íslenski draumurinn og Corpus Camera.
Jóhann samdi einnig tónlistina við heimildamyndina Sumarlok sem hann leikstýrði og skrifaði handritið að.

Ferill hans sem kvikmyndatónskáld var glæsilegur og var hann meðal annars tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í myndunum Sicario og The Theory of Everything. Jóhann hlaut Golden Globe verðlaun fyrir tónlist sína í The Theory of Everything og var einnig tilnefndur fyrir Arrival. Jóhann hlaut auk þess þrjár tilnefningar til BAFTA verðlauna fyrir tónlist sína í Arrival, Sicario og The Theory of Everything. Þá hlaut hann Grammy tilnefningar fyrir Arrival og The Theory of Everything.

Jóhann Jóhannsson lést þann 9. febrúar 2018, 48 ára að aldri.