Um KMÍ
Á döfinni

29.11.2019

Þrjú íslensk verkefni á kvikmyndahátíðinni í Les Arcs - Bergmál valin í aðalkeppni

Þrjú íslensk verkefni munu vera hluti af evrópsku kvikmyndahátíðinni í Les Arcs í Frakklandi sem fer fram dagana 14. - 21. desember.  

Bergmál, nýjasta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, mun taka þátt í aðalkeppni hátíðarinnar ásamt níu öðrum myndum. Nýverið vann Bergmál til Interfilm kirkjuverðlaunanna á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi auk þess sem Rúnar vann til verðlaun fyrir bestu leikstjórn fyrir myndina á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Seminci í Valladolid á Spáni. Bergmál var heimsfrumsýnd í haust í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss og hlaut þar aðalverðlaun dómnefndar unga fólksins. 

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson mun taka þátt í verk í vinnslu hluta hátíðarinnar þar sem 18 kvikmyndir í eftirvinnslu verða kynntar fyrir fagaðilum í kvikmyndaiðnaðinum. Valdimar leikstýrir Dýrinu og skrifar handritið ásamt Sjón. 

Þá mun leikstjórinn Erlendur Sveinsson taka þátt í Talent Village hluta hátíðarinnar með verkefni sitt Sjö hæðir. Talent Village fer fram í annað sinn nú í ár og miðar að því að hjálpa ungum og upprennandi leikstjórum við ferlið að fyrstu leiknu kvikmynd þeirra.  

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Les Arcs hátíðarinnar