Um KMÍ
Á döfinni

18.12.2023

Natatorium heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam 2024

Kvikmynd Helenar Stefánsdóttur, Natatorium, verður heimsfrumsýnd á IFFR – alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Rotterdam, sem fram fer 25. janúar - 4. febrúar 2024. Myndin verður sýnd í flokknum Bright Futures, keppnisflokki sem er helgaður fyrstu eða annarri mynd nýrra og spennandi leikstjóra.

Natatorium segir frá ungri stúlku, Lilju, frá Vestmannaeyjum sem kemur til borgarinnar til að þreyta inntökupróf í alþjóðlegan gjörningahóp. Hún ákveður að dvelja hjá ömmu sinni Áróru og afa sínum Grím sem hún hefur ekki séð lengi vegna ósættis í fjölskyldunni. Þegar liður á dvöl Lilju fer ýmislegt undarlegt að koma upp á yfirborðið og ljóst er að það sem hefur sundrað fjölskyldunni er hrikalegt leyndarmál sem enginn þorir að tala um. Þegar Lilja er tekin inn í listahópinn bíður Áróra fjölskyldunni að fagna saman. Fjölskyldan hittist heima hjá Áróru og Grím og hefur það skelfilegar afleiðingar í för með sér. 

Elin Petersdottir og Ilmur María Arnardóttir fara með aðalhlutverk í myndinni. Með önnur hlutverk fara Stefanía Berndsen, Jónas Birkir Alfreðsson, Valur Freyr Einarsson, Arnar Dan Kristjánsson, Stormur Jón Kormákur Baltarsson og Kristín Pétursdóttir.

Framleiðandi Natatorium er Sunna Guðnadóttir, hjá Bjartsýn Films. Meðframleiðendur eru Heather Millard (Silfurskjár) og Julia Elomäki (Tekele Productions). Með alþjóðlega sölu og dreifingu fer LevelK.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Rotterdam leggur áherslu á sjálfstæða og tilraunakennda kvikmyndagerð. Hún er ein stærsta kvikmyndahátíðin í Evrópu sem hátt í 300 þúsund manns sækja árlega.

Natatorium fer í sýningar á Íslandi föstudaginn 23. febrúar.