Um KMÍ
Á döfinni

8.7.2020

Norrænar stelpur skjóta óskar eftir umsóknum fyrir tveggja daga vinnusmiðju í október

Norrænar Stelpur Skóta er tveggja daga vinnusmiðja sem verður haldin í annað sinn í tengslum við Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðina Northern Wave frá 22.-25. október næstkomandi. Vinnusmiðjan er ætluð ungum kvikmyndagerðarkonum með það að markmiði að styrkja tengslanet ungra kvenna í kvikmyndagerð á Norðurlöndunum, til framtíðar og veita þeim fræðslu og handleiðslu.

Umsóknarfrestur er til 15.júlí næstkomandi. Umsóknareyðublaðið má nálgast hér: NGS - NORDIC GIRLS SHOOT IN ICELAND - Northern Wave

Vinnusmiðjan hefur hlotið veglegan styrk bæði frá Norden 0-30 og Nordisk Cultur Fund. Vinnusmiðjan verður haldin í Frystiklefanum á Rifi í aðdraganda Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar sem fer fram þar í 13. sinn 23.-25. október. Þar sem verkefnið er hluti af Norden 0-30 verkefninu á vegum Norrænu Ráðherranefndarinnar, mega umsækjendur ekki vera eldri en 30 ára þegar að vinnusmiðjan á sér stað. Tvær ungar kvikmyndagerðarkonur verða valdar frá hverju Norðurlandi eða alls 14 kvikmyndagerðarkonur frá Grænlandi, Finnlandi,Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi og Færeyjum. Vinnusmiðjan greiðir allan ferðakostnað fyrir þátttakendur í tengslum við vinnusmiðjuna.

Hópurinn mun samanstanda af kvikmyndatökukonum, leikstýrum og handritshöfundum auk 7 leiðbeinenda frá hverju landi. Með þessu er unnið að því markvist að tengja eldri fagkonur við ungar konur úr deildum fagsins þar sem mest hallar á konur. Í vinnusmiðjunni taka þátttakendur þátt í hópavinnu, “pitch” vinnusmiðju leidda af fagkonum sem munu að auki veita einstaklingsbundna ráðgjöf. Vinnusmiðjan var haldin í fyrsta sinn á síðasta ári og gekk vonum framar en í ár bætist Finnland og Danmörk í hópinn.

Leiðbeinendur/Mentorar hópsins eru finnski framleiðandinn Elli Toivoniemi (Tuffi Film, Finnland), grænlenski framleiðandinn Nina Skydsbjerg Jacobsen (Film in Greenland,Paninoir), sænski framleiðandinn Helene Granqvist sem er jafnframt formaður bæði Wift Sweden og Wift International, Norska leikstýran Ingebjörg Torgesen sem er jafnframt formaður Wift Norway, færeyski framleiðandinn Ingunn í Skrivarastovu frá Fish&FIlm, danski handritshöfundurinn Valerie Richter frá Nordic Factory og leikstjórinn og handritshöfundurinn Dögg Mósesdóttir frá Freyju Filmwork sem er líka verkefnastjóri verkefnisins.

Norrænar Stelpur Skjóta vinnur einnig að því að ungar kvikmyndagerðarkonur frá smáríkjum líkt og Íslandi, Grænlandi og Færeyjum geti tengst stærri þjóðum á norðurlöndunum sem mun styrkja bæði fagið og þær sjálfar til framtíðar.