Um KMÍ
Á döfinni

8.6.2015

Hrútar vann til tveggja verðlauna á Transilvaníu kvikmyndahátíðinni

Tiff logo Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, vann til tvennra verðlauna á Transilvania International Film Festival, hinni virtu kvikmyndahátíð sem fór fram í Cluj-Napoca í Rúmeníu. 

Verðlaunin sem myndin hlaut voru sérstök dómnefndarverðlaun og áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Hrútar tók þátt í aðalkeppni hátíðarinnar líkt og París norðursins, undir leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar. Grímur Hákonarson, Grímar Jónsson framleiðandi Hrúta og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson voru allir viðstaddir verðlaunaafhendinguna.

Þá var Fúsi eftir Dag Kára sýnd í „The Usual Suspects“ hluta hátíðarinnar og Vonarstræti undir leikstjórn Baldvins Z var sýnd í „Supernova“ hluta hátíðarinnar. París norðursins, Fúsi og Vonarstræti eru allar sýndar um þessar mundir í Bíó Paradís með enskum texta.

Óhætt er að segja að Hrútar fari ansi vel af stað á vegferð sinni um kvikmyndahátíðir heimsins, en myndin vann sem kunnugt er til Prix Un Certain Regard á Cannes kvikmyndahátíðinni.

Þegar hafa tæplega 8000 manns séð Hrúta í kvikmyndahúsum hérlendis. Um opnunarhelgi sína dagana 25. – 28. maí var hún aðsóknarhæsta myndin og skákaði þar meðal annars stórmynd George Miller, Mad Max: Fury Road
Hrútar er sýnd í Háskólabíói, Smárabíói og Borgarbíói Akureyri.