Um KMÍ
Á döfinni
  • Rams-efa

21.11.2015

Sigurganga Hrúta heldur áfram – vann þrenn verðlaun

Hrútar, kvikmynd Gríms Hákonarsonar, vann aðalverðlaunin fyrir bestu kvikmynd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ljubljana í Slóveníu og Krzysztof Kieslowski verðlaunin fyrir bestu kvikmynd á kvikmyndahátíðinni í Denver í Bandaríkjunum. Myndin hlaut einnig Silfurfroskinn í aðalkeppni Camerimage hátíðarinnar í Bydgoszcz í Póllandi.

Hrútar hefur nú unnið til samtals 21 verðlauna á hinum ýmsu alþjóðlegu kvikmyndahátíðum og þar af eru níu aðalverðlaun. Sigurganga Hrúta hófst þegar myndin vann Un Certain Regard verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí síðastliðnum.

Nýverið hlaut Hrútar tilnefningu sem besta evrópska kvikmyndin á evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Aðeins sex kvikmyndir eru tilnefndar til verðlaunanna. Verðlaunafhendingin mun fara fram í Berlín þann 12. desember næstkomandi.

Þá er Hrútar framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2016 í flokki kvikmynda á erlendu tungumáli. Um miðjan desember verður tilkynnt um forvalið á þeim 9 myndum sem eiga möguleika á tilnefningum og þann 14. janúar 2016 verður tilkynnt um hvaða 5 myndir hljóta endanlegar tilnefningar fyrir bestu kvikmynd á erlendu tungumáli.